Útgöngubann boðað í Langbarðalandi

Frá Mílanó.
Frá Mílanó. AFP

Yfirvöld í Langbarðalandi á Ítalíu undirbúa nú að setja á útgöngubann að næturlagi í þeirri von að það verði til þess að draga úr fjölgun nýrra smita í héraðinu.

Útgöngubannið gildir frá klukkan 23 til 5 að morgni og tekur gildi á fimmtudag. Samkvæmt tilkynningu er það í gildi til 13. nóvember.

Heilbrigðisráðherra Ítalíu, Roberto Speranza, féllst í gærkvöldi á tillögur héraðsstjórnarinnar um að herða sóttvarnareglur í héraðinu.

Forseti héraðsstjórnarinnar, Attilio Fontana, segir að rétt sé að grípa til þessara aðgerða sem ekki ættu að hafa alvarleg áhrif á viðskiptalíf héraðsins. Yfir 10 þúsund ný kórónuveirusmit voru staðfest á Ítalíu á föstudag og hafa aldrei verið fleiri á einum sólarhring. Flest eru þau í Langbarðalandi líkt og í fyrri bylgjunni í vetur. Í gær, mánudag, voru 1.687 ný smit staðfest í Langbarðalandi en helsta fjármálaborg Ítalíu, Mílanó, er í héraðinu. Í Campana-héraði voru ný smit í gær 1.593 talsins. 

Frá því Covid-19 faraldurinn hófst í Evrópu snemma á þessu ári hafa yfir 36 þúsund látist af völdum hans á Ítalíu. 

mbl.is