13 ár í fangelsi án ákæru

Sehar Bibi, móðir Asadullah Haroon, kyssir mynd af Asadullah í …
Sehar Bibi, móðir Asadullah Haroon, kyssir mynd af Asadullah í Shamshatu-flóttamannabúðunum þar sem hún dvelur. AFP

Hún hefur beðið eftir því í þrettán ár að sonur hennar verði látinn laus úr fangabúðum Bandaríkjanna við Guantánamo-flóa á Kúbu án árangurs. Hann hefur aldrei verið ákærður en vistin hefur einkennst af hungurverkföllum, þvinguðum máltíðum og einangrun.

Sehar Bibi segir að á sama tíma og háttsettir foringjar talíbana séu látnir lausir úr haldi sé sonur hennar, Asadullah Haroon, enn á bak við lás og löngu gleymdur. Hann er einn af fáum Afgönum sem enn er haldið í fangabúðunum en hundruð fanga hafa verið látnir lausir þaðan undanfarin ár.

Bibi, sem er búsett í flóttamannabúðum í Peshawar í Pakistan eftir að hafa flúið heimalandið fyrir áratugum síðan, segir að hún sé að missa vitið og geti ekki meir. 

Guantanamo herfangelsið.
Guantanamo herfangelsið. Ljósmynd/Wikipedia

Hunangssali eða burðardýr?

Haroon seldi hunang og flakkaði á milli Peshawar og Jalalabad í Afganistan þegar hann var handtekinn árið 2006. Fjölskyldan heldur því fram að líklega hafi verið um gildru að ræða þar sem hægt var að fá greitt fyrir að framselja mögulega vígamenn til bandarískra yfirvalda. Bandarísk stjórnvöld segja aftur á móti að Harron hafi verið burðardýr og með tengsl við al-Qaeda í gegnum vígahópinn Hezb-i-Islami. Þessu neita stuðningsmenn hans, fjölskylda og lögmenn. 

Haroon, en hann og eiginkona hans höfðu skömmu áður en hann var handtekinn eignast barn, er eins og um helmingur þeirra 40 fanga sem enn eru í búðunum á Kúbu, fastur í deilum milli lögfræðinga og stjórnvalda. Áætlun bandarískra stjórnvalda um að hætta hernaðarafskiptum í Afganistan hefur gert málið enn erfiðara fyrir fjölskyldurnar að sætta sig við að fangarnir eru ekki látnir lausir. Því til að auka líkur á friði í Afganistan hafa Bandaríkin þrýst á afgönsk stjórnvöld að láta þúsundir vígamanna lausa úr fangelsum. Þar á meðal menn sem stóðu á bak við hryðjuverkaárásir sem kostuðu fjölda manns lífíð. 

Lögmaður Haroons, Clive Stafford Smith, sem stofnaði samtökin Reprieve, segir að á sama tíma og ríkisstjórn Bandaríkjanna krefjist þess að fimm þúsund talíbanar séu látnir lausir úr haldi í Afganistan geti hún ekki látið einn Afgana, sem skipti hana engu máli, lausan úr haldi úr Guantánamo-búðunum. Reprieve eru bresk mannréttindasamtök sem berjast fyrir réttindum fanga um allan heim.

Abdul Ghafar og Sehar Bibi eru foreldrar Asadullah Haroon en …
Abdul Ghafar og Sehar Bibi eru foreldrar Asadullah Haroon en með þeim á myndinni er Roman Khan eldri sonur þeirra. AFP

Tilviljun ræður því að hann er enn í fangabúðunum

„Það sem honum þykir erfiðast andlega séð er að hann skiptir engu máli og fyrir tilviljun er hann enn þarna,“ segir Smith um skjólstæðing sinn.

Fangabúðirnar við Guantánamó-flóa eru meðal annars þekktar fyrir að þar hafi mikilvægum föngum verið haldið í búrum og harkalegum aðferðum beitt við yfirheyrslur. Svo harkalegum að þeim er lýst sem pyntingum.

Þrátt fyrir að búið sé að láta flesta fanga lausa eða þeir fluttir annað hefur forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, sagt að hann vilji ekki loka fangelsinu heldur fylla það af vondum kauðum. 

Eini Afganinn, fyrir utan Haroon í Guantánamo-búðunum, Muhammed Rahim, kom þangað mánuði á eftir Haroon. Leyniþjónusta Bandaríkjanna (CIA) sakar hann um að hafa verið náinn félagi leiðtoga al-Qaeda, Osama Bin Laden, á sínum tíma. 

Roman Khan með mynd af bróður sínum, Asadullah Haroon.
Roman Khan með mynd af bróður sínum, Asadullah Haroon. AFP

Kate Clark, sem er annar stjórnenda Afghan Analysts Network, virts rannsóknarhóps hvað varðar málefni Afganistan samkvæmt AFP-fréttastofunni, segir að Haroon sé langt frá því að vera veruleg hryðjuverkaógn. Ásakanir á hendur Haroon voru hvergi birtar opinberlega fyrr en WikiLeaks upplýsti um þær.

Clark segir í samtali við AFP-fréttastofuna að ekkert  réttlæti að Haroon sé haldið í Guantánamo-fangelsinu. Ef hann hafi komið að einhverju tengdu vígasamtökum á sínum tíma hafi það verið léttvægt.

Var félagi í Hezb-i-Islami

Fjölskylda Haroons, sem flúði frá Afganistan eftir að Sovétríkin réðust þar inn 1979, viðurkennir að Haroon hafi verið félagi í Hezb-i-Islami-samtökunum líkt og svo margir í flóttamannabúðunum sem þau dvelja í.

Samtökin hafi skrifað undir friðarsamkomulag við ríkisstjórnina í Kabúl árið 2916 sem varð til þess að fangar úr hópi liðsmanna samtakanna voru látnir lausir í Afganistan. 

AFP

Haroon segir sjálfur að hann hafi reynt að starfa með yfirvöldum í Bandaríkjunum en það hafi ekki dugað til. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem lögmaður hans lagði fram og AFP hefur undir höndum.

65 kg hafa yfirgefið Guantánamó

Haroon ræddi nýverið við fjölskyldu sína með aðstoð Rauða krossins í gegnum myndspjall og  segist fjölskylda hans hafa tekið eftir því að hann hafi breyst áberandi mikið undanfarið. Bæði hvað varðar líkamlegt ástand og hvernig hann talar.

Hann hefur ítrekað farið í hungurverkfall undanfarin ár og segir sjálfur að hann hafi verið 80 kg við komuna í fangelsið en nú sé hann 50 kg. Eða eins og Haroon segir sjálfur: „Að minnsta kosti hefur 65 kg af mér tekist að losna úr Guantánamo.“

mbl.is