Konur niðurlægðar á flugvellinum

AFP

Utanríkisráðherra Ástralíu, Marise Payne, greindi frá því á þingi í dag að kvenfarþegar um borð í tíu farþegaþotum á leið frá Doha hefðu verið neyddar til þess að fara í leggangaskoðun á flugvellinum. Yfirvöld í Katar hafa beðist afsökunar á þessari niðurlægingu sem konurnar upplifðu.

Fundu nýfætt barn í ruslafötu

Furstadæmið hefur verið gagnrýnt harðlega eftir að fréttir bárust af því að konur hefðu verið færðar frá borði farþegaþotu Qatar Airways sem var á leið til Sydney og þær þvingaðar í leggangaskoðun. Þetta var gert eftir að nýfætt barn hafði verið skilið eftir á flugvellinum í Doha að sögn stjórnvalda í Katar. Barnið fannst vafið inn í plast ofan í ruslafötu þar sem því var ætlað að deyja. 

AFP

Payne segir að ekki sé rétt að aðeins konur um borð einni farþegaþotu hafi orðið fyrir þessu inngripi. Alls sé um tíu flugferðir að ræða og 18 konur hafi orðið fyrir því að þurfa að fara í leghálsskoðun. Af þeim eru 13 ástralskar konur sem voru á leið til Sydney. Samkvæmt frétt AFP-fréttastofunnar varð frönsk kona á leið til Sydney einnig fyrir þessu.

Fær hroll við tilhugsunina

Payne greindi ekki frá því hverjir aðrir áfangastaðir voru, aðeins að hún vissi ekki hvort ástralskar konur hefðu verið um borð í flugvélunum. Payne segir að þetta framferði gagnvart konunum sé ákaflega dónalegt og óviðeigandi. Forsætisráðherra Ástralíu, Scott Morrison, tekur í svipaðan streng og segir þetta óásættanlegt. 

Hann segir að sem faðir setji að honum hroll og svona eigi aldrei að koma fram við konur, hvort sem þær eru ástralskar eða af öðru þjóðerni. 

mbl.is