„Þetta hefur gengið of langt“

AFP

Yfirmaður kjörstjórnar í Georgíu segir að Donald Trump beri ábyrgðina ef ofbeldi brýst út í kjölfar órökstuddra fullyrðinga hans um kosningasvindl í ríkinu. 

Í yfirlýsingu sem repúblikaninn Gabriel Sterling hefur sent frá sér segir: „Þetta hefur gengið of langt! Allt saman! Þessu verður að linna!“ 

Gabriel Sterling, yfirmaður kjörstjórnar í Georgíu.
Gabriel Sterling, yfirmaður kjörstjórnar í Georgíu. AFP

Verið er að endurtelja í annað skiptið í Georgíu að beiðni framboðs Trumps. Demókratinn Joe Biden var lýstur sigurvegari í ríkinu en Trump segir að um kosningasvindl sé að ræða.

Talsmaður framboðs Trumps, Tim Murtaugh, segir að framboðið sé að reyna að fá fullvissu fyrir því að öll lögleg atkvæði séu talin og ekki ólögleg. 

Í gær greindi dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, William Barr, frá því að ekkert bendi til þess að um svindl hafi verið að ræða í bandarísku forsetakosningunum 3. nóvember.

Sterling segir að tvítugur verktaki í Gwinnett-sýslu sem hefur unnið við talningu atkvæða hafi orðið fyrir árásum af hálfu samsæriskennismiða á hægri væng stjórnmálanna. Honum hafi borist líflátshótanir og fjölskylda hans áreitt. 

Að sögn Sterling er hann sjálfur kominn með lögregluvörð fyrir utan heimili sitt og eiginkona ríkisstjórans hafi fengið kynferðislegar hótanir í síma.

„Herra forseti þú hefur ekki fordæmt þessar aðgerðir né heldur orðræðuna,“ segir Sterling. „Öldungadeildarþingmenn þið hafið ekki fordæmt þessar aðgerðir né orðræðuna.“

Sjá nánar á BBC

mbl.is