„Ég vissi og sagði ekki neitt“

Bók Camille Kouchner, La Familia Grande.
Bók Camille Kouchner, La Familia Grande. AFP

Einn helsti álitsgjafi franskra fjölmiðla þegar kemur að stjórnmálum hefur látið af störfum í kjölfar ásakana um að hann hafi beitt stjúpson sinn kynferðislegu ofbeldi. Það er tvíburasystir þolandans sem skrifar bókina þar sem ásakanirnar koma fram. Bókin er gefin út með leyfi þess sem varð fyrir ofbeldinu. 

Olivier Duhamel, sem segir ásakanir á hendur honum persónulegar árásir, en það er stjúpdóttir hans, Camille Kouchner, sem skrifar bókina. Þar segir hún að Duhamel hafi beitt tvíburabróður hennar kynferðislegu ofbeldi þegar þau voru 14 ára gömul og ýmsir úr vinahópi móður hennar og stjúpa hafi vitað af níðinu sem fór fram á heimili fjölskyldunnar.

Bókin, La Familia grande, kemur út á fimmtudag en bæði tímaritið L'Obs og dagblaðið Le Monde hafa birt kafla úr bókinni. Lýsingarnar í bókinni hafa valdið miklum titringi enda Duhamel bæði þekktur af störfum sínum sem háskólaprófessor og álitsgjafi í fjölmiðlum.

Olivier Duhamel.
Olivier Duhamel. AFP

Upplýsingarnar í bókinni þykja sláandi en langt frá því einsdæmi hvað varðar kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum í Frakklandi sem sjaldan rataði í opinbera umræðu fyrir #MeToo.

Útgefandinn Vanessa Springora gaf út bók fyrir ári síðan þar sem hún sakaði þekktan verðlaunaðan franskan rithöfund, Gabriel Matzneff, um að hafa misnotað hana þegar hún var barn. Í kjölfarið steig önnur kona fram og tók undir ásakanir Springora.

Í nóvember 2019 sakaði kvikmyndastjarnan Adèle Haenel leikstjórann Christophe Ruggia um að hafa beitt hana kynferðislegu ofbeldi þegar hún var vart af barnsaldri. Haenel var aðeins 12 ára göm­ul þegar hún lék í kvik­mynd Ruggia, Les Dia­bles (Djöfl­arn­ir).

Haenel og fleiri leikkonur gengu út þegar Roman Polanski var valinn besti leikstjórinn á César kvikmyndahátíðinni í febrúar í fyrra. Polanski er eftirlýstur í Bandaríkjunum fyrir að hafa nauðgað 13 ára gamalli stúlku þar í landi árið 1977.

Duhamel skrifar á Twitter að í kjölfar ásakana hafi hann látið af öllum störfum. Þar á meðal yfirmaður Institut d'études politiques de Paris (Sciences Po).

„Ég læt af störfum eftir að hafa orðið skotmark persónulegra árása og ég vil vernda þær stofnanir sem ég starfa fyrir,“ skrifar hann en Duhamel var einnig þáttastjórnandi á útvarpsstöðinni Europe 1 og álitsgjafi LCI sjónvarpsstöðvarinnar.

Camille Kouchner, sem er 45 ára gömul í dag, starfar sem háskólakennari. Hún er dóttir fyrrverandi utanríkisráðherra Frakklands og eins af stofnendum Lækna án landamæra (MSF),  Bernard Kouchner, og Évelyne Pisier, sem var rithöfundur og háskólakennari. Hún lést árið 2017. 

Eftir skilnaðinn við Koushner gekk Pisier í hjónaband með Duhamel. „Ég var 14 ára gömul og lét þetta óáreitt. Ég var 14, ég vissi og sagði ekki neitt,“ skrifar Camille Kouchner í bókinni samkvæmt fréttum franskra fjölmiðla. Í bókinni nefnir hún tvíburabróður sinn aðeins sem Victor til að vernda einkalíf hans en í umfjöllun Le Monde kemur fram að hann hafi lesið textann yfir í tvígang og verið sáttur við það sem kemur fram í bókinni.

„Ég staðfesti að það sem systir mín hefur ritað um framferði Olivier Duhamel gagnvart mér er rétt,“ segir Victor í viðtali við Le Monde. Börn Kouchner og Pisier heita Julien, Camille og Antoine.

Koushner segir í viðtali við L'Obs að nokkrir vinir þeirra Duhamel og Pisier hafi vitað hvað gekk á innan veggja heimilisins. 

Í yfirlýsingu sem lögfræðingur Bernard Kouchner sendi frá sér fyrir hans hönd segir að hann fagni því að leyndarmál sem hafi hvílt þungt á fjölskyldunni séu loksins upplýst og hann vilji hrósa dóttur sinni fyrir hugrekkið. 

mbl.is