Þrýstir á Pence að staðfesta ekki úrslitin

Donald Trump og Mike Pence.
Donald Trump og Mike Pence. AFP

„Ef varaforseti okkar, Mike Pence, stendur sig munum við halda forsetaembættinu“. Á þessum orðum hefst færsla Donald Trumps, Bandaríkjaforseta, á Twitter og Facebook í morgun, en í dag er fyrirhuguð staðfesting öldungardeildar Bandaríkjaþings á niðurstöðum forsetakosninganna. 

Banda­ríska kjör­mannaráðið (e. Electoral Col­l­e­ge) kaus Biden form­lega 14. des­em­ber sl., en 306 kjör­menn greiddu Biden at­kvæði sitt gegn 232 sem greiddu Trump at­kvæði. Var það í sam­ræmi við úr­slit kosn­ing­anna. Lögum samkvæmt kem­ur það í hlut beggja deilda þings­ins að staðfesta kjör kjör­mannaráðsins. 

„Fölsk úrslit“

Fram til þessa hefur þetta talist formsatriði, en Bandaríkjaforseti vill nú breyta út af venjunni. Vonast hann til þess að varaforsetinn, Mike Pence, muni koma í veg fyrir staðfestingu úrslitanna. Segir Trump að Pence hafi valdið til þess. 

„Fjölmörg ríki vilja draga til baka úrslitin í sínum ríkjum þar úrslitin voru fölsk. Úrslitin voru ekki staðfest af löggjöfum ríkjanna, sem þau verða að vera. Mike getur sett úrslitin aftur í hendur ríkjanna,“ segir í færslu forsetans. 

Samkvæmt fréttamiðlum vestanhafs mun Pence ekki láta undan þrýstingi forsetans heldur muni hann þess í stað samþykkja úrslitin. Hefur hann látið forsetann vita af því að hann hafi ekkert vald til þess að breyta úrslitum kosninganna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert