Ísrael tilraunaríki fyrir Pfizer

Benjamín Netanjahú fékk seinni sprautuna í gær.
Benjamín Netanjahú fékk seinni sprautuna í gær. AFP

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, varð í gær fyrstur Ísraela til að þiggja seinni skammtinn af bóluefni fyrir kórónuveirunni, þremur vikum eftir að hann fékk fyrri skammtinn. 

Engin þjóð hefur bólusett nærri jafnstórt hlutfall þjóðarinnar og Ísraelar, en um 20% íbúa hafa þegið fyrri bólusetninguna og hefst síðari bólusetning þess hóps í dag. Til samanburðar er hlutfallið 1,4% hér á landi.

Tvær bólusetningar með þriggja vikna millibili þarf til að tryggja fulla virkni efnisins.

Netanjahú sagði við tilefnið að hann gerði ráð fyrir að hjarðónæmi yrði náð í landinu innan tveggja mánaða að því er segir í umfjöllun Times of Israel. Tíu milljónir skammta, sem duga fyrir fimm milljónir manns, hefðu þá borist til landsins, en 9,2 milljónir búa í Ísrael.

Færa Pfizer tölfræði um efnið

Upphaflega hafði verið ráðgert að næsta sending Pfizer-bóluefnisins kæmi til landsins í febrúar. Á fimmtudag tilkynnti Netanjahú hins vegar að samningar hefðu náðst við Pfizer um milljónir skammta til viðbótar. Muni landið þá gegna hlutverki eins konar „tilraunríkis“ fyrir lyfjafyrirtækið og færa því tölfræðilegar upplýsingar um virkni efnisins. 

Virðist því sem Ísraelum hafi tekist að sannfæra Pfizer um að ganga að sams konar tilboði og Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir reyna nú að freista fyrirtækisins með. Viðræður Íslendinga við Pfizer um forgang hafa enn engan árangur borið.

Miðað við núgildandi afhendingaráætlun er gert ráð fyrir að bólusetningum hér á landi ljúki um mitt sumar, að því en Richard Bergström, yfirmaður bóluefnamála fyrir Ísland, Svíþjóð og Noreg, hefur sagt. Kári hefur hins vegar lýst efasemdum um þá áætlun.

mbl.is

Bloggað um fréttina