Forsíðumynd af Kamölu Harris veldur usla

Kamala Harris er verðandi varaforseti Bandaríkjanna.
Kamala Harris er verðandi varaforseti Bandaríkjanna. AFP

Tímaritið Vogue er sagt hafa valið verri mynd af Kamölu Harris, verðandi varaforseta Bandaríkjanna, en upphaflega stóð til á forsíðu tímaritsins. Á samfélagsmiðlum hefur tímaritið einnig verið sagt hafa farið illa með lýsingu myndarinnar og hafa notendur Twitter jafnvel sagt að Vogue hafi lýst húð Harris.

Vogue birti tvær myndir af Harris á Twitter í gær. Samkvæmt ónefndum heimildarmanni innan teymis Kamölu Harris var önnur mynd valin af Harris á forsíðuna en samþykkt hafði verið. Á þeirri sem teymið hafði valið er Harris klædd í bláa dragt og stendur sjálfsörugg fyrir framan gulan bakgrunn. Myndin sem var valin á forsíðuna, samkvæmt heimildarmanninum, sýnir Harris í mun hversdagslegri fatnaði, þar á meðal Coverse-skóm fyrir framan bleikan borða og grænt veggfóður. 

ABC og Guardian eru á meðal þeirra sem greina frá þessu.

Eftir að Vogue birti myndirnar hafa þær hlotið mikla gagnrýni á Twitter þar sem notendur segja til dæmis að forsíðan sé stórslys. 

Vogue hefur neitað því að tímaritið hafi lýst húð Harris. Þá hefur tímaritið ekki gefið upp hvor myndin muni enda á forsíðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert