Melania rýfur þögnina um innrásina í þinghúsið

Melania Trump forsetafrú.
Melania Trump forsetafrú. AFP

Bandaríska forsetafrúin Melania Trump tjáði sig í dag um innrás stuðningsmanna eiginmanns hennar í bandaríska þinghúsið í síðustu viku. Hún sagði í því samhengi að hún hefði orðið fyrir persónulegum árásum vegna innrásarinnar.

Melania Trump hafði ekki tjáð sig um málið fyrr en nú og hefur fjarvera hennar í umræðunni vakið athygli. Yfirlýsing hennar birtist á heimasíðu Hvíta hússins. Hún sagðist þar vonsvikin og hnuggin yfir atburðunum. 

Klúrt slúður og ástæðulausar árásir

En vanlíðan Melaniu Trump virðist að stórum hluta vera sprottin af því hvernig framkomu hún hefur mætt, ekki vegna árásarinnar á heimili bandarísks lýðræðis. 

„Mér finnst svívirðilegt að klúrt slúður, ástæðulausar persónulegar árásir og falskar, villandi ásakanir á hendur mér, frá fólki sem reynir að skipta máli í umræðunni, umkringi þennan hræðilega atburð,“ skrifaði Melania Trump.

Hún vottaði fjölskyldum þeirra fimm sem létust í óeirðunum samúð sína. Athygli AFP-fréttastofunnar vakti að hún hefði nefnt stuðningsmenn Donalds Trumps Bandaríkjaforseta sem féllu á nafn áður en hún nefndi lögregluþjóninn Brian Sicknick sem einnig lést. 

„Þjóðin okkar verður að jafna sig á siðaðan hátt. Ekki misskilja mig, ég fordæmi ofbeldið sem varð í þinghúsinu. Ofbeldi er aldrei ásættanlegt,“ skrifaði Melania Trump.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert