Fornmunum rænt af hafsbotni í Eystrasalti

Sænskir fornleifafræðingar keppast nú við að ná fornmunum úr skipsflökum á hafsbotni í Eystrasalti við austurströnd Svíþjóðar þar sem óprúttnir aðilar hafa látið greipar sópa á undanförnum fjórum árum. Strandgæslan vaktar nú svæðið þar sem blómleg verslun var fyrr á öldum og mikil skipaumferð. 

Í myndskeiði AFP-fréttaveitunnar er meðal annars rætt við fornleifafræðinginn Jim Hansson sem vinnur að undirbúningi á sjóminjasafni sem mun geyma gripi sem hafa fundist á botni Eystrasalts. En þrátt fyrir nafnið mun saltmagnið í sjónum þar vera lítið og því varðveitast munir sem hvíla á hafsbotni þar betur en víða annars staðar.

Árið 2017 fannst heillegt skipsflak á 28 metra dýpi undan ströndum Svíþjóðar við bæinn Dlo sem Hanson og teymi hans segja um 500 ára gamalt. Þar var heillegur og fallegur þrífættur ketill sem var horfinn þegar Hansson ætlaði að sækja hann þremur mánuðum síðar. „Ég var sótbölvandi í köfunargrímuna á þrjátíu metra dýpi,“ segir Hanson. Líklegt þykir að munir á borð við þennan séu seldir söfnurum en þær gætu auðgað sögu tímabilsins verulega.

Fornleifafræðingurinn Jim Hansson fer yfir málin með löggæsluaðilum sem standa …
Fornleifafræðingurinn Jim Hansson fer yfir málin með löggæsluaðilum sem standa nú vaktir við sænska skerjagarða. AFP

Þúsundir skipsflaka hvíla á botninum

Talið er að um 20.000 skipsflök hvíli á botni Eystrasalts en merkilegasti fundurinn var árið 1961 þegar flak orrustuskipsins Vasa fannst en skipið sökk í sinni fyrstu sjóferð árið 1628 með 64 fallbyssur um borð. Skipið er nú á safni og er einn vinsælasti áfangastaður ferðamanna á leið um Svíþjóð.

Í nóvember fundu Hanson og samstarfsmenn hans skip sem þeir telja vera systurskip Vasa í skerjagarðinum við Svíþjóðarstrendur þannig að gripið var til þess að fá herinn ásamt strand- og löggæsluaðilum til að aðstoða við vöktun á svæðinu. Ljóst er að töluverð umferð er um svæðið og Hanson segir ljóst að þjófar hafi farið í að minnsta kosti fjögur átjándualdarskip á svæðinu en sérstök leyfi þarf til að kafa niður að skipsflökunum. „Ef verðmæti eru í spilinu mun fólk reyna að taka þau og því er mikilvægt að koma þessum málum í réttan farveg með hernum, strandgæslunni og lögreglunni,“ segir Hanson í samtali við AFP.

Sænska strandgæslan undirbýr köfun ásamt fornleifafræðingum skammt frá bænum Dalaro. …
Sænska strandgæslan undirbýr köfun ásamt fornleifafræðingum skammt frá bænum Dalaro. Þrjátíu metrum fyrir neðan er að finna fimmhundruð ára gamalt skipsflak. AFP
mbl.is