Enginn með smit í Færeyjum

Þórshöfn í Færeyjum.
Þórshöfn í Færeyjum. mbl.is/Björn Jóhann

Enginn er nú með virkt kórónuveirusmit í Færeyjum samkvæmt upplýsingum frá færeyska landlæknisembættinu, sem þarlendir fjölmiðlar birta. Þá er enginn þar í sóttkví.

Fram kemur í yfirliti landlæknisembættisins, að 658 hafa greinst með veiruna og þar af hafi 657 náð sér aftur en einn lést, 68 ára gamall karlmaður, sem var haldinn undirliggjandi sjúkdómi.

Alls hafa 231.545 sýni verið tekin í Færeyjum frá því byrjað var að skima fyrir veirunni í mars á síðasta ári. 

Alls hafa 4.190 Færeyingar fengið fyrri bólusetningu gegn veirunni eða 7,9% íbúa, og 2523 hafa fengið síðari bólusetninguna, eða 4,8% eyjarskeggja. 

mbl.is