Franskur þingmaður lést í þyrluslysi

Olivier Dassault, þingmaður Repúblikanaflokksins í Frakklandi, er látinn.
Olivier Dassault, þingmaður Repúblikanaflokksins í Frakklandi, er látinn. AFP

Franski milljarðamæringurinn og stjórnmálamaðurinn Olivier Dassault lést í þyrluslysi í norðurhluta Frakklands í dag. AFP greinir frá þessu.

Auður Dassaults var metinn á um fimm milljarða evra, en fjölskylda hans auðgaðist á viðskiptum í flug- og varnarmálageiranum auk þess að færa sig síðar út í fjölmiðlabransann. Hann komst á þing árið 2002 fyrir Repúblikanaflokkinn og sat á þingi til dauðadags.

Emmanuel Macron, forseti landsins, vottaði Dassault virðingu sína í færslu á Twitter. „Olivier Dassault elskaði Frakkland. Leiðtogi í viðskiptum og þingmaður. Hann hætti aldrei að þjóna landinu okkar,“ skrifaði Macron og bætti við að mikill missir væri að Dassault.

mbl.is