Missti 60 tonna vél af pallinum

Vinnuvélin sem valt af palli vörubifreiðarinnar í krappri beygju vegur …
Vinnuvélin sem valt af palli vörubifreiðarinnar í krappri beygju vegur 60 tonn og lokar einu akstursleiðinni til og frá 220 íbúa byggð. Ljósmynd/Fylkisskrifstofan

Byggðin í Geiranger og að hluta í Eidsdal í Mæri og Raumsdal í Noregi sætir nú einangrun tímabundið eftir að 60 tonna þung jarðgangavinnuvél, svokallaður tunnelrigg, valt af palli vörubifreiðar í krappri beygju við Lidarheim í Eidsdal snemma í kvöld og lokar nú veginum.

„Við erum með gröfu á svæðinu og athugum nú hvort mögulegt sé að útbúa hjáleið svo smærri ökutæki og sjúkrabifreiðar geti komist leiðar sinnar,“ sagði Arne Ola Stavseng, verkefnisstjóri fylkisins, við norska ríkisútvarpið NRK í kvöld, en á veturna er þessi vegur eina akstursleiðin til og frá byggðinni í Geiranger.

220 íbúar einangraðir

Verið var að ferja vinnuvélina til framkvæmdasvæðis væntanlegra jarðganga milli Korsmyra og Indreeide þegar óhappið varð og ekkert áhlaupsverk að koma henni á réttan kjöl vegna þyngdarinnar.

„Við vitum ekki enn sem komið er hvernig þetta gat gerst, en aðalmálið núna er að ná að opna veginn á nýjan leik,“ sagði Stavseng enn fremur og kvaðst þakka fyrir að engin slys urðu á fólki.

Jan Ove Tryggestad, bæjarstjóri í Stranda, sveitarfélagi byggðanna innilokuðu, sagði um 220 íbúa nú hvorki komast lönd né strönd, en vonandi verði hægt að útbúa hjáleið í nótt. „Veðrið er þokkalegt og lítill snjór í fjallinu svo vonandi gengur það eftir. Ellegar þurfum við að ræsa út bráðabirgðaferju,“ sagði bæjarstjórinn, en byggðarlögin standa við fjörð og hægt um vik að ná til þeirra sjóleiðina.

NRK

Sunnmørsposten (læst áskrifendasíða)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert