Skotárás við næturklúbb náðist á myndband

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. AFP

Réttarhöld hefjast í dag yfir sex karlmönnum sem grunaðir eru um aðild að skotárás í sænsku borginni Norrköping í desember 2019. Tveir létust í árásinni sem talin er hafa verið uppgjör tveggja glæpagengja.

Skotárásin átti sér stað utan við næturklúbb í borginni og náðist á öryggismyndavélum staðarins. Sænska ríkissjónvarpið, SVT, birti í dag myndbönd úr öryggismyndavél þar sem sjá má bíl nema staðar og mennina í bílnum skjóta á tvo menn sem standa utan við klúbbinn. Skothríðin stendur í um tíu sekúndur en á þeim tíma er hleypt af 24 skotum úr AK-47-hríðskotariffli og skammbyssu. Annar mannanna deyr samstundis en hinn stuttu síðar af sárum sínum. Fórnarlömbin tvö voru meðlimir í glæpagengi sem nefnist No Surrender MC.

Meðan á árásinni stóð var næturklúbburinn fullur af grunlausu fólki og úr myndavélum má sjá að nokkrir gestir innandyra stóðu aðeins örfáum sentímetrum frá gluggum staðarins sem nokkur skot hæfðu.

Þótt árásarmennirnir hafi ekki haft almenna gesti í sigtinu virðast þeir því ekki hafa haft miklar áhyggjur af því þótt þeir hafi verið nærstaddir. „Maður undrar sig á tillitsleysi þeirra og kaldlyndi. Að svo opinskátt sé talað um að drepa fólk. Þeim virðist standa á sama um mannslíf og það er þetta kaldlyndi sem ég er ekki vanur að sjá,“ segir Lars-Inge Olsson, sem stýrði rannsókn lögreglu, í samtali við SVT.

mbl.is