Rappari ásakar ríkisfjölmiðil um ritskoðun

Matteo Salvini, fyrrverandi innanríkisráðherra Ítalíu, sendi Fedez tóninn vegna ummæla …
Matteo Salvini, fyrrverandi innanríkisráðherra Ítalíu, sendi Fedez tóninn vegna ummæla rapparans. AFP

Ítalski rapparinn Fedez hefur ásakað ítalska ríkisfjölmiðilinn Rai um tilraun til ritskoðunar. Fedez heldur því fram að fjölmiðillinn hafi beðið hann fyrirfram um að veita þeim aðgang að yfirlýsingu sem rapparinn ætlaði að flytja á tónleikum síðasta laugardag. Rapparinn neitaði beiðni fjölmiðilsins og flutti yfirlýsinguna á endanum með leyfi fjölmiðilsins. Í yfirlýsingunni gagnrýndi hann með nafni staðhæfingar ákveðinna flokksmanna Bandalagsins, þjóðernisflokks á Ítalíu, sem hann taldi ala á hatri gegn samkynhneigðum á Ítalíu.

Ríkisfjölmiðillinn hefur neitað því að hann hafi reynt að ritskoða rapparann. Fedez birti þá á Twitter-síðu sinni brot úr samtali við aðstoðarsjónvarpsstjóra stöðvarinnar Rai 3, þar sem tónleikarnir voru sýndir. Rapparinn hélt því fram að á upptökunni mætti heyra stjórnandann biðja rapparann um að nafngreina ekki þá stjórnmálmenn sem hann vildi gagnrýna. „Ég er að biðja þig um að venjast kerfi sem þú líklega skilur ekki,“ er meðal þess sem stjórnandinn sagði í samtali sínu við Fedez.

Í svari við ásökun rapparans benti Rai á að rapparinn hefði einungis birt hluta samtalsins, þar á meðal neitun stjórnandans um að ritskoðun væri að ræða.

Umdeilt frumvarp í fyrirrúmi

Tilgangur ummæla Fedez á tónleikunum var að lýsa yfir stuðningi við frumvarp sem liggur fyrir ítalska þinginu. Frumvarpið myndi gera ofbeldi gagnvart konum og hinsegin fólki að hatursglæpum. Það hefur fengið samþykki neðri deildar þingsins en það mætti mikilli mótstöðu íhaldsmanna í efri deildinni. Telja þeir að með samþykki frumvarpsins yrði það gert ólöglegt að opinberlega mæla gegn réttindum samkynhneigðra til þess að gifta sig eða ættleiða börn.

Fedez hefur ásakað Banda­lagið, sem er næststærsti flokkurinn á ítalska þinginu, um að koma í veg fyrir að frumvarpið yrði að lögum. Matteo Salvini, leiðtogi Bandalagsins og fyrrverandi innanríkisráðherra Ítalíu, gagnrýndi hátterni Fedez og bauð rapparanum til þess að ræða við sig um „frelsi og réttindi“. Benti Salvini á í færslu á Facebook-síðu sinni að ofbeldi gegn konum og samkynhneigðum væri þegar ólöglegt á Ítalíu og væri því frumvarpið ekki nauðsynlegt.   

mbl.is