Fjölskyldufaðir „stærstu fjölskyldu heims“ látinn

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. AFP

76 ára karlmaður, sem talið er að hafi verið fjölskyldufaðir stærstu fjölskyldu heims, lést á sunnudag á heimili sínu í Mizoram-fylki á Indlandi. 

Ziona Chana, sem var yfir trúarflokki sem stundar fjölkvæni, átti 38 eiginkonur, 89 börn og 36 barnabörn. Chana þjáðist af sykursýki og háum blóðþrýstingi. BBC greinir frá því að Chana hafi verið veikur um nokkurt skeið og að ástandið hafi versnað hratt á síðustu dögum. Hann var fluttur á sjúkrahús í gærkvöldi og úrskurðaður látinn við komuna. 

Erfitt er að segja til um hvort Chana hafi raunverulega verið fjölskyldufaðir stærstu fjölskyldu heims, þar sem fleiri hafa lýst því yfir. Þá er einnig erfitt að segja til um raunverulega stærð fjölskyldu hans, sögum ber ekki saman um hve margar eiginkonur og börn Chana átti í raun og veru. 

Chana og fjölskylda voru í miklum metum í Mizoram og löðuðu að fjölda ferðamanna. Stórfjölskyldan býr saman í fjögurra hæða húsi með yfir 100 herbergjum. Eiginkonur Chana deila álmu í húsinu sem er nærri svefnherbergi hans. 

Chana fæddist árið 1945 og kynntist elstu eiginkonu sinni, sem er þremur árum eldri en hann, þegar hann var 17 ára. 

mbl.is