Kamala Harris leggur leið sína að landamærunum

Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna.
Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna. AFP

Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna, mun á föstudag leggja leið sína að landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó, í fyrsta skipti síðan þau Joe Biden voru kjörin til að leiða Bandaríkin.

Eft­ir op­in­bera heim­sókn til Mexí­kó þar sem Harris ráðlagði fólki frá því að leita yfir landa­mær­in, var hún spurð hvers vegna hún væri ekki búin að fara í heim­sókn að landa­mær­un­um og taka stöðuna þar. Vék hún sér ít­rekað und­an því að veita nokk­ur svör.

Hart hefur verið gengið að Harris að fara að landamærunum og kynna sér aðstæður þar af eigin raun, eftir að forsetinn fól henni það verkefni að takast á við „frumorsakir“ fólksflutninganna miklu frá Suður-Ameríku.

Fleiri streyma að landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna nú en þekkst hefur síðustu 20 ár, eftir talsverðan samdrátt í valdatíð Donalds Trumps. Tilkynnt var um fyrirhugaða ferð Harris að landamærunum viku eftir að Trump lýsti því yfir að hann ætlaði þangað 30. júní.

Frétt á vef BBC

mbl.is