Stefan Löfven segir af sér

Stefan Löfven.
Stefan Löfven. AFP

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, sagði af sér á blaðamannafundi rétt í þessu. Vantrauststillaga á Löfven var samþykkt á sænska þinginu fyrir viku og rann frestur Löfvens til þess að ákveða hvort hann myndi boða til kosninga eða segja af sér út í dag.

Á blaðamannafundinum sagði hann ekki gott fyrir Svíþjóð að boða til kosninga vegna stöðunnar í samfélaginu vegna heimsfaraldurs. Ríkisstjórn Löfvens mun halda áfram að stýra Svíþjóð í bili sem bráðabirgðaríkisstjórn.

Þarf að fá stuðning frá 175 þingmönnum

Löfven er fyrsti leiðtogi sænsku ríkisstjórnarinnar sem þingið hefur samþykkt vantrauststillögu gegn. 

Það er nú í höndum þingforsetans Andreas Norlens að opna á viðræður um skipun nýs forsætisráðherra. 

Ulf Kristersson, leiðtogi miðjuflokksins Moderata samlingspartiet, hefur verið nefndur sem líklegasti arftaki Löfvens.

Ferlið gæti þó tekið langan tíma þar sem Norlen þarf að ræða við formenn allra flokka á sænska þinginu áður en hann leggur til nýjan forsætisráðherra. Þá þarf Norlen að fá stuðning við valið frá 175 þingmönnum. Ef honum tekst það ekki þarf að boða til kosninga að nýju.

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert