Töldu svartan fasteignasala vera innbrotsþjóf

Húsið var til sýnis og á sölu.
Húsið var til sýnis og á sölu. AFP

Lögreglan í Wyoming í Michiganríki í Bandaríkjunum handtók fasteignasala og viðskiptavini hans, sem skoðuðu fasteign í úthverfi borgarinnar sem hann var með til sölu, í síðustu viku. Fasteignasalinn og viðskiptavinirnir eru allir svartir Bandaríkjamenn og taldi lögreglan þá vera að fremja húsbrot. 

The Washington Post greinir frá. 

Eric Brown var að sýna viðskiptavinum sínum, Roy Throne og fimmtán ára syni hans, fasteign þegar lögregla hafði skyndilega umkringt heimilið, dregið upp skotvopn og skipað mönnunum, ásamt drengnum, að koma úr út húsinu.

Sögðust kannast við bílinn

Þeir voru allir handjárnaðir á vettvangi og komið hverjum í sinn lögreglubílinn. 

Lögreglan tjáði þeim að nágrannar húseigenda hefðu hringt á lögregluna til þess að tilkynna að verið væri að brjótast inn í húsið.

Þá töldu nágrannarnir sig kannast við bifreið sem mennirnir voru á þar sem svartur Mercedes Benz hafði verið notaður við innbrot á svæðinu nýlega.

Þegar lögreglan mætti á vettvang voru Chevrolet- og Hyundai-bílar fyrir utan húsið að sögn Washington Post.

mbl.is