Um 25 manns særðust í sprengingu í Gautaborg

Frá vettvangi í morgun.
Frá vettvangi í morgun. Skjáskot/SVT

Um 25 manns særðust í sprengingu í fjölbýlishúsi í Annedal hverfi í Gautaborg snemma í morgun. Þrjár konur eru alvarlega slasaðar en meiðsl hinna eru talin minniháttar. Ekki er víst hvað olli sprengingunni.

Fréttastofa SVT var á vettvangi og má sjá myndskeið þaðan í frétt þeirra.

Ekki hefur verið lagt mat á umfang skemmdanna en rannsókn er hafin á tildrögum þessa. Sprengingin varð rétt fyrir klukkan fimm í morgun að staðartíma eða rétt fyrir klukkan þrjú í nótt að íslenskum tíma.

„Nokkrar íbúðir og stigagangar urðu fyrir áhrifum af sprengingunni. Það er óvíst hvað olli henni,“ segir í yfirlýsingu frá bráðaþjónustu Gautaborgar. 

Ingrid Fredriksson, hjá Sahlgrenska sjúkrahúsinu, sagði við fjölmiðla að þrjár konur í það minnsta væru alvarlega slasaðar. Ein þeirra er á sextugsaldri, önnur á sjötugsaldri og sú þriðja á áttræðisaldri. Ingrid sagði að meiðsl annarra væru minniháttar.

Stökk fram af svölunum

Íbúðir í grenndinni voru rýmdar og þurftu hundruðir íbúa að fara að heiman vegna þessa. Fólkið dvelur nú í kirkju á svæðinu. 

Jessica, íbúi í byggingunni sem sprengingin varð í, sagðist hafa þurft að stökkva af svölum íbúðar sinnar stuttu eftir að hún heyrði hávaða um klukkan 4:30 í morgun að staðartíma. 

„Við héldum að við gætum farið niður stigann vegna þess að við búum frekar neðarlega í húsinu en það virkaði ekki. Í staðinn stukkum við af svölunum og fengum hjálp frá nágrönnum okkar.“

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is