Telja sig hafa fundið Stjörnumerkjamorðingjann

Almennt hefur hingað til verið talið að hann hafi myrt …
Almennt hefur hingað til verið talið að hann hafi myrt fimm manns í og við San Francisco-borg í Bandaríkjunum á seinni hluta sjöunda áratugarins.

Hópur einkaspæjara heldur því fram að hann hafi leyst gátuna um hinn fræga Stjörnumerkjamorðingja (e. Zodiac Killer), einn alræmdasta raðmorðingja sögunnar. Independent greinir frá.

Morðinginn náðist aldrei en hann ögraði gjarnan yfirvöldum og pressunni með því að senda þeim hinu ýmsu dulmál og kóða.

Almennt hefur hingað til verið talið að hann hafi myrt fimm manns í og við San Francisco-borg í Bandaríkjunum á seinni hluta sjöunda áratugarins. Morðinginn hélt þó fram að hann hefði myrt 37 manns, talan gæti því verið hærri.

Hópurinn, sem ber nafnið „The Case Breakers“ og samanstendur af yfir 40 fyrrverandi rannsóknar- og alríkislögreglumönnum, einkaspæjurum og réttarmeinafræðingum, segist nú hafa leyst ráðgátuna á bak við auðkenni mannsins.

Myrkraherbergi, hrukkur og DNA

Að sögn hópsins var morðinginn alræmdi maður að nafni Gary Francis Poste sem féll frá árið 2018. Vísa þeir til vísbendinga sem þeim hefur tekist að safna undanfarin ár.

Þar á meðal má nefna myndir sem fundust í myrkraherbergi Poste, hrukkur á enni hans sem samsvara teikningum lögreglunnar, auk annarra líffræðilegra gagna á borð við DNA.

Hópurinn heldur því fram að maðurinn sem um ræðir hafi gerst sekur um annað morð á konu að nafni Cheri Jo Bates í Riverside í Kaliforníu-ríki. Morðið á Bates átti sér þó stað árið 1966, rúmum tveimur árum fyrir og hundruðum kílómetrum norðar en hin morðin.

Rannsóknum skuli beina til FBI

The Case Breakers segjast þó bæði sannfærðir um að Poste hafi myrt Bates, enda séu DNA-gögn sem sýna fram á það, sem og að Poste sé hinn frægi morðingi. Lögreglan í Riverside hefur þó gefið út að morðið á Bates sé ekki tengt Stjörnumerkjamorðingjanum.

„Við skiljum vel að það sé áhugi almennings að leysa þessi óleystu mál en öllum rannsóknum í tengslum við stjörnumerkjamorðingjann skal beina til alríkislögreglunnar FBI,“ sagði hún í samtali við Fox News.

Alríkislögreglan sagði í desember á síðasta ári að rannsóknin væri enn í fullum gangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert