Þvert nei við kórónupassa

Horft yfir Tromsø, Íshafsdómkirkjan, eða Ishavskatedralen, næst brúnni. Wilhelmsen bæjarstjóra …
Horft yfir Tromsø, Íshafsdómkirkjan, eða Ishavskatedralen, næst brúnni. Wilhelmsen bæjarstjóra verður ekki kápan úr því klæðinu að taka upp kórónupassann í bráð. AFP

Gunnar Wilhelmsen, bæjarstjóri í Tromsø í Noregi, var atkvæðum borinn þegar bæjarstjórn greiddi í dag atkvæði um innleiðingu svokallaðs kórónupassa sem aðgangsheimild að veitingahúsum og ýmsum uppákomum þar í bænum og gerði þar með að engu drauma bæjarstjórans um að höfuðstaður Norður-Noregs yrði fyrsta sveitarfélag landsins til að taka passann í notkun en fyrir því hefur hann barist með kjafti og klóm síðan 9. nóvember.

Ríkti einhugur meðal meirihlutans, sem hafnaði passanum, um að tæknilega hliðin á notkun passans, það er skönnun QR-kóða rétthafa passans, væri svo skammt á veg komin að ekki þætti forsvaranlegt með tilliti til ákvæða persónuverndarlaga og hvað sem framtíðinni liði yrði passinn alla vega ekki skilyrði fyrir aðgangi neins staðar þessa vikuna.

Þvert á móti ákvað meirihlutinn að létta á sóttvarnaskilyrðum og aflétta skyldu veitingastaða til að vísa öllum gestum í föst sæti sem þeir skyldu nota meðan á dvöl þeirra stæði.

Passi án tafar

Jafnskjótt og ríkisstjórn Noregs gaf grænt ljós á það 12. nóvember að sveitarfélögum væri heimilt að hefja notkun kórónupassa, byði þeim svo við að horfa, lýsti Wilhelmsen bæjarstjóri því yfir einhliða að Tromsø tæki passann í notkun án tafar og í síðasta lagi þriðjudaginn 16. nóvember.

Fimmtánda nóvember ákvað bæjarstjórn hins vegar að passanotkun frestaðist til 19. nóvember hið minnsta og þann dag tjáði bæjarstjóri fréttastofunni NTB að Tromsø væri í startholunum fyrir passann, fyrir því væri ríkulegur meirihluti í bæjarstjórn. Í gær bárust hins vegar þau tíðindi frá Lýðheilsustofnun Noregs að einnar til tveggja vikna bið væri á því að fullnægjandi tæknileg lausn fyrir notkun passans yrði til reiðu og í dag lagðist yfirlæknir sveitarfélagsins eindregið gegn því að passinn yrði tekinn í notkun strax vegna óuppfylltra persónuverndarákvæða.

Lögfræðingar hafa enn fremur tekið undir að notkun passans sé enn sem komið er vafasöm frá sjónarhorni fræða þeirra auk þess sem mótmæli gegn passanum við ráðhús bæjarins á laugardag voru vel sótt og yfir 20.000 undirskriftir gegn honum söfnuðust fljótt þegar blásið var til slíkrar söfnunar.

Fljótfærni og óðagot

Bæjarfulltrúar Framfaraflokkins og Hægriflokksins hafa gagnrýnt Wilhelmsen bæjarstjóra harðlega fyrir einkaherferð hans til að gera Tromsø að fyrsta sveitarfélagi Noregs til að nota passann og lýsti Bjørn Gunnar Jørgensen framfaraflokksmaður því yfir að bæjarstjóri hefði þar fengið rækilega magalendingu, mageplask á norsku.

Helga Marie Bjerke, bæjarfulltrúi Kristilega þjóðarflokksins, sagði hins vegar: „Ferlið fram að þessu ber metnaðarfullum bæjarstjóra vitni sem ætlar sér að verða fyrstur í landinu til að grípa til nýrra aðgerða. Líkast til ber hann hag atvinnulífsins fyrir brjósti þótt framganga hans beri vott um fljótfærni og óðagot.“

Kórónupassinn bíður því enn um sinn í Tromsø.

NRK

NRKII (mótmælin á laugardag)

E24

mbl.is