Segir næstu faraldra geta orðið banvænni

Sarah Gilbert, ein þeirra sem kom að þróun bóluefnis AstraZeneca. …
Sarah Gilbert, ein þeirra sem kom að þróun bóluefnis AstraZeneca. Gilbert er mikil fyrirmynd fyrir unga og áhugasama vísindamenn. Til marks um það var gerð barbídúkka í hennar líki. AFP

Heimsfaraldrar framtíðarinnar gætu orðið mun banvænni en kórónuveirufaraldurinn sem enn geisar, að sögn einnar þeirra sem kom að þróun bóluefnis AstraZeneca.

Dr. Sarah Gilbert sagði nýverið í fyrirlestri við Oxford-háskóla, þar sem hún hefur prófessorstöðu, að fjárveitingar til forvirkra aðgerða gegn útbreiðslu faraldra þyrftu að aukast til þess að sú þekking sem skapast hefur af yfirstandandi faraldri glatist ekki.

Fjárhagshalli megi ekki verða til þess að við söfnum ekki í sarpinn

Í frétt BBC er einnig haft eftir Gilbert að mögulega væru bóluefni veikari vörn gegn nýja Ómíkron-afbrigðinu en fyrri afbrigðum. Þannig vill hún að ríki heimsins flýti sér hægt þar til meira er vitað um afbrigðið.

„Þetta er ekki í síðasta sinn sem veira ógnar lífum okkar og lifnaðarháttum. Sannleikurinn er sá, að næsti faraldur gæti orðið verri. Næsta veira gæti verið meira smitandi, banvænni eða bæði,“ sagði Gilbert og bætti við:

„Við getum ekki leyft þeim aðstæðum að skapast að við séum búin að ganga í gegnum allt sem við höfum gengið í gegnum, aðeins til þess að uppgötva að allt það fjárhagslega tap sem orðið hefur verið til þess að ekki sé hægt að fjármagna forvirkar aðgerðir gegn útbreiðslu næsta faraldurs.“

mbl.is

Bloggað um fréttina