Chris Brown sakaður um að hafa byrlað og nauðgað konu

Söngvarinn Chris Brown.
Söngvarinn Chris Brown. AFP

Söngvarinn Chris Brown hefur verið sakaður um að byrla konu ólyfjan og nauðga henni. Honum er er stefnt fyrir 20 milljón bandaríkjadali eða tæpa 2,6 milljarða íslenskra króna.

Breska ríkisútvarpið greinir frá.

Á atvikið að hafa átt sér stað á snekkju þann 30. desember árið 2020 í Miami í Flórída. Konan, sem ekki er nefnd á nafn í lagalegum skjölum, greindi frá því að sér hafði verið boðið í snekkju söngvarans og framleiðandans Diddy.

Konan segir Brown hafa boðið sér drykki um borð í snekkjunni og hún hafi síðar fundið fyrir „skyndilegri og óútskýrðri breytingu á meðvitund sinni“.

Segist hún þá hafa orðið „líkamlega óstöðug og sofnað og vaknað til skiptis“, Brown hafi þá leitt hana inn í svefnbergi þar sem hann á að hafa afklæðst og nauðgað henni.

Brown er sagður hafa haft samband við konuna daginn eftir og sagt henni að taka neyðargetnaðarvörn.

Sat í fanelsi í 131 daga

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Chris Brown er annað hvort sakaður um eða dæmdur fyrir kynbundið ofbeldi. Fyrsta líkamsárásarákæran hans var árið 2009, þegar hann beitti þáverandi kærustu sína, Rihönnu, ofbeldi.

Var Brown ákærður fyrir líkamsárás og að lokum dæmdur í skilorðsbundið fangelsi árið 2009. Hann lauk reynslulausn í mars árið 2015, þar sem hann játaði fyrir rétti í Los Angeles árið 2014 að hafa brotið skilorð með annarri líkamsárás og var því dæmdur í fangelsi í 131 daga.

Árið 2012 lenti hann í meintum átökum við konu sem ætlaði að taka mynd af honum er hann var að yfirgefa skemmtistað. Árið 2013 réðist hann á aðra konu á öðrum skemmtistað sem þurfti á aðgerð á hné að halda eftir atvikið. Var málinu á endanum vísað frá.

Árið 2016 var hann hantekinn fyrir að hafa ráðist á konu og hótað henni með vopni. Árið 2017 fékk fyrrrverandi kærasta Chris Brown, Karrueche Tran, fimm ára nálgunarbann á hann. Brown verður að halda sig í tæp­lega 100 metra fjar­lægð frá heim­ili henn­ar, vinnu og bíl og má ekki hafa sam­band við hana und­ir nein­um kring­um­stæðum.

mbl.is