Rússar berjast í miðborg Mariupol

Hart er barist í Maríupol.
Hart er barist í Maríupol. AFP

Volodimír Selesnkí Úkraínu­for­seti kallaði eftir nýjum friðarviðræðum í nótt eftir að Rússar tilkynntu að þeir væru komnir inn í hafnarborgina Mariupol. 

„Það er kominn tími til að hittast, tími til að tala, tími til að endurheimta landyfirráð og réttlæti fyrir Úkraínu,“ sagði Selenskí í ávarpi á Facebook. 

„Annars verður tjón Rússa slíkt, að nokkrar kynslóðir munu ekki jafna sig af átökunum.“

Eiga í erfiðleikum með að útvega hermönnum nauðsynjavörur

Að sögn talsmanna varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna er sókn Rússa í Úkraínu að mestu leyti stöðnuð. Rússneski herinn er um 30 kílómetra austur af Kænugarði og mætir mikilli mótspyrnu. 

Þá telja Bandaríkjamenn að rússneski herinn hafi ekki komist lengra inn í borgina Karkív í austurhluta landsins, sem þeir hafa umkringt. Þá standast varnir Úkraínumanna einnig Tsérnihív í norðri. 

Varnarmálaráðuneyti Bretlands telur að Rússar eigi í erfiðleikum með að útvega hermönnum sínum helstu nauðsynjar svo sem mat og eldsneyti vegna árása Úkraínumanna á leiðir sem Rússar nota til birgðasendinga.

Rússar tilkynntu hins vegar í gær að þeir hefðu náð yfirráðum í Mariupol. 

Sprengjuárás eyðilagði leikhús í borginni þar sem fjölmargir höfðu leitað …
Sprengjuárás eyðilagði leikhús í borginni þar sem fjölmargir höfðu leitað skjóls. AFP

„Hersveitir alþýðulýðveldisins Donetsk, með stuðningi rússneska hersins, berjast nú í miðborg Mariupol gegn þjóðernissinnum,“ sagði í yfirlýsingu rússneska varnarmálaráðuneytisins. 

Borgarstjóri borgarinnar hefur staðfest að barist er í miðborginni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert