Íbúarnir héldu út að hreinsa til eftir árásir

Eins og sjá má eru sumar byggingar mjög illa farnar …
Eins og sjá má eru sumar byggingar mjög illa farnar eftir sprengjuregn og árásir Rússa á borgina Karkív.

Íbúar í borginni Karkív tóku sig saman síðustu tvo daga og hreinsuðu upp götur, garða og stræti eftir árásir Rússa á borgina. Mikið er um brak og annað rusl á götum eftir sprengjuárásir sem eyðilagt hafa fjölda húsa í borginni. Borgarbúar létu yfirvofandi árásir þó ekki stöðva sig og héldu í hreinsunarstarfið.

Við höld­um áfram að heyra frá þeim Jaroslav í borg­inni Ódessa í suður­hluta lands­ins, Ser­gei í Lvív í vest­ur­hluta lands­ins og Kar­ine í borg­inni Karkív í aust­ur­hluta lands­ins, en þau deila með mbl.is upp­lif­un­um sín­um og greina frá því hvað efst er í huga al­mennra borg­ara eft­ir að stríð braust út í landi þeirra.

Þriðjudagur 29. mars

Karíne í Karkív

Síðasta nótt var róleg og stórskotahríðin var mun minni en áður. Líf er hægt og rólega að færast yfir borgina, en ég veit að svona rólegir dagar fást aðeins vegna aðgerða hersins okkar, þjóðvarnarliðsins og með alþjóðlegum stuðningi, en ekki vegna góðs vilja innrásarhersins. Rússarnir eru slægir og eru nú að safna herliði sínu aftur saman til að gera aðra árás.

Rússar eyðilögðu nýlega enn eina sögulegu bygginguna hér í borginni. Í þetta skiptið var það ein af elstu slökkvistöðvum landsins, en húsnæðið var byggt árið 1887. Önnur söguleg bygging var skemmd í byrjun mars, en það var húsnæði áfrýjunardómstólsins hér í Karkív. Það var byggt á árunum 1899-1902 sem dómshús og var hannað af arkitektinum Oleksí Beketov. Opnun hússins fór fram 30. nóvember 1903, en á þriðja áratug síðustu aldar var svo síðasti hluti hússins formlega kláraður. Í seinni heimstyrjöldinni skemmdist húsið, en var endurbyggt eftir stríðið. Nýlega var svo lokið við endurgerð hússins.

Braki og rusli safnað saman.
Braki og rusli safnað saman.

 

Í dag og í gær fór Marína, frænka mannsins míns, ásamt fleiri íbúum Karkív og tók þátt í tiltekt í borginni. Var meðal annars reynt að hreinsa til í kringum staði sem höfðu orðið fyrir sprengjuárásum Rússa, meðal annars rétt við áfrýjunardómstólinn.

Einn hópurinn sáttur að verki loknu.
Einn hópurinn sáttur að verki loknu.

Ætterni Marínu er rússneskt, en hún horfir alltaf á sig sem Úkraínubúa. Þrátt fyrir allt eru Úkraínubúar ekki bara þjóðerni, heldur allir íbúar ríkisins. Úkraína eru fjölþjóða ríki og Úkraínumenn eru allir þeir sem telja Úkraínu vera heimaland sitt. Þetta er fólk með mismunandi þjóðernisbakgrunn. Þetta eru dagestanskir nágrannar mínir sem flúðu þegar stríðið braust út en vilja snúa til baka, heim. Þetta er úsbekska fjölskyldan sem seldi grænmeti og ávexti hér í næstu götu. Börn þeirra lærðu öll úkraínsku og einn sonur þeirra var í læknanámi.

Ihor Terekhov, borgarstjóri Karkív, kíkti við og fylgdist með hreinsunarstarfinu.
Ihor Terekhov, borgarstjóri Karkív, kíkti við og fylgdist með hreinsunarstarfinu.

Þetta eru líka Túrkmenar, Tatarar, Rússar, Armenar, Georgíumenn, Hvíta-Rússar, gyðingar og Grikkir, en margir af þeim síðast nefndu bjuggu í Maríupol. Þetta er fólk sem horfir allt á Úkraínu sem heimili sitt, landið sitt og móðurjörðina. Fólk af mismunandi þjóðerni á Úkraínu.

Rússar hafa alltaf reynt að vinna gegn tungumálum þessara hópa og þannig að sundra samfélögum. Hverrar þjóðar sem þú ert hér í Úkraínu þá ertu virtur fyrir það.

Það var ráðist í allskonar hreinsistörf sem og vorverk.
Það var ráðist í allskonar hreinsistörf sem og vorverk.

Og eitt með Rússa og Rússland. Þegar ég tala um að Rússar séu að ráðast á Úkraínu á ég ekki við þjóðflokkinn Rússa heldur á ég við þá sem búa í Rússlandi og hafa reynt að niðurlægja annað fólk og þjóðir í kringum sig. Þessir Rússar virða ekki menningu annarra þjóða og hafa troðið rússnesku upp á aðrar þjóðir.

Fyrirlitning fyrir gildum annarra hefur verið einkenni Rússa og það má sjá á að flestir Rússar virðast styðja aðgerðir ríkisstjórnar sinnar varðandi þetta stríð. Þetta er svo réttlætt með fáránlegum rökum eins og að Úkraína hafi ætlað að ráðast inn í Rússland fyrst. Þeir sem tala þannig eru því miður fullir af ranghugmyndum.

Til upplýsinga þá er faðir minn Armeni og móðir mín úkraínsk og sjálf skilgreini ég mig sem Úkraínumann.

Marína, frænka eiginmanns Karíne var ein þeirra sem aðstoðaði við …
Marína, frænka eiginmanns Karíne var ein þeirra sem aðstoðaði við hreinsistarfið. Eins og sjá má eru skemmdar byggingar í bakgrunni.

Jaroslav í Ódessu

Við erum hér enn og við erum enn að aðstoða fólk. Ekkert hefur breyst. Í dag undirbjuggum við um fimmtíu skammta af þurrmat sem við náðum þó ekki að koma út þar sem fjölmörg önnur verkefni komu á borð okkar í dag. Á morgun munum við ná að sendast með þessar matarpakka.

Við vitum að ekkert er nákvæmlega samkvæmt áætlun í þessum aðstæðum og þess vegna er erum við ekkert stressaðir þegar breytingar verða. Við vinnum bara að okkar markmiði jafnt og þétt.

Jaroslav og æskuvinur hans hittust í gær, en vinurinn er …
Jaroslav og æskuvinur hans hittust í gær, en vinurinn er einn þeirra sem sinnir vörnum borgarinnar.

 

Ég hitti einn æskuvin minn í dag, en hann var bekkjabróðir minn hér áður fyrr. Í dag er hann einn af okkar öflugustu varðmönnum borgarinnar. Gaman að segja frá því að hann kom með hugmyndina að fyrstu hljómsveitinni sem ég var í. Við hlógum saman þegar við rifjuðum upp að hann var áður fyrr hræddur um að foreldrar hans myndu komast að því að hann væri byrjaður að reykja. Í dag stendur hann hins vegar fyrir framan mig í fullum herskrúða, vopnaður, í skotheldu vesti og með handsprengjur.

Hann sagðist vera viss um að við myndum sigra og auðvitað munum við sigra! Í nótt get ég því farið að sofa án alls ótta.

Sergei í Lvív

Þrítugasti og fjórði dagur stríðsins. Dagurinn var mjög afkastamikill í raunverulegu vinnunni minni og viðskiptavinir eru hægt og rólega að leita til okkar á ný. Vonandi mun þess þróun halda áfram á komandi dögum. Veðrið var frekar slæmt í dag og ég fór því ekki úr húsi, auk þess sem loftvarnaflauturnar glumdu í þrígang, án þess að neinar sprengjur lentu.

Horfði á fréttir frá Rússlandi og það virðist vera sem hermenn þar séu plataðir í að taka þátt í stríðinu með innantómum loforðum um ævintýri. Sjáum til hvort það rætist, ég allavega trúi engu sem kemur frá Rússlandi.

Í kvöld fer ég snemma í háttinn því það er vinnudagur framundan á skrifstofunni. Vonandi er allt gott að frétta hjá þeim sem lesa þetta!

Staðan: Sakna eiginkonu minnar og sonar mjög mikið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert