Pútín niðurlægi sig frammi fyrir heimsbyggðinni

Pútín myndaður þann 11. maí.
Pútín myndaður þann 11. maí. AFP/Metzel

Liz Truss, utanríkisráðherra Bretlands, sagði að Vladimír Pútín forseti Rússlands væri að „niðurlægja sjálfan sig á heimssviðinu“. Hún kallaði eftir harðari refsiaðgerðum gegn Rússlandi vegna stríðsins í Úkraínu.

BBC greinir frá en Truss lét ummælin falla á fundi G7 ríkjanna í Berlín, höfuðborg Þýskalands. 

Truss sagði að ekki ætti að aflétta refsiaðgerðum fyrr en allir rússneskir hermenn hefðu yfirgefið Úkraínu. 

Utanríkisráðherrann Liz Truss.
Utanríkisráðherrann Liz Truss. AFP

Kallaði hermennina hugleysingja en lofaði hjúkrunarfræðinga

Í ávarpi sínu í nótt sagði Volodimír Selenskí forseti Úkraínu að Rússland hafi nú þegar orðið fyrir „augljósum“ ósigrum. 

„Rússland skortir einungis hugrekkið til þess að segja frá því,“ sagði Selenskí. 

Hann kallaði rússneska hermenn „hugleysingja“ sem reyndu að „fela sannleikann á bak við flugskeyti.

Í gær var alþjóðlegur dagur hjúkrunarfræðinga og þakkaði Selenskí hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum fyrir að bjarga lífum úkraínskra hermanna. Þá sakaði hann Rússa um að hafa eyðilagt 570 heilbrigðismiðstöðvar síðan stríðið hófst í febrúarmánuði.

mbl.is