Níu létust í átökum við öryggissveitir

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. AFP

Hið minnsta níu hafa látist í átökum milli öryggissveita Tads­íkist­an og „hryðjuverkamanna“ nærri landamærum Tads­íkist­an við Kína og Afganistan að sögn innanríkisráðuneytis landsins. Fjöldi fólks hefur slasast í átökunum. 

Í tilkynningu innanríkisráðuneytisins segir að „skipulagðir glæpahópar“ sem báru vopn og bensínsprengjur hafi ráðist á liðsmenn öryggissveita í héraðinu Gorno-Badakhshan í austurhluta landsins. Lengi hefur verið spenna á svæðinu. 

Einn liðsmaður öryggisveita lést og 13 slösuðust í átökunum sem varð að sögn ráðuneytisins við „aðgerðir gegn hryðjuverkum“ sem hófust fyrr á miðvikudag eftir að 200 vopnaðir einstaklingar höfðu lokað fyrir umferð um stofnveg nærri landamærunum við Afganistan. 

Átta „hryðjuverkamenn“ létust í átökunum, ellefu særðust og 70 voru handteknir. 

Yfirvöld segja glæpahópinn hafa fengið vopn frá alþjóðlegum „hryðjuverkasamtökum“ og erlendum málaliðum. Er hópurinn sakaður um að vilja grafa undan stjórnskipun landsins. 

Spenna hefur verið á svæðinu síðan að fimm ára borgarastyrjöld braust úr skömmu eftir að landið fékk sjálfstæði árið 1991 eftir fall Sovétríkjanna. Tungumál og kynþáttur íbúa Gorno-Badakhshan er annað en annars staðar í landinu og þar hafa skæruliðar andvígir stjórnvöldum haldið til síðan að stríðinu lauk. Héraðið er staðsett í Pamír-fjallgarðinum og þar búa um 200 þúsund íbúar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert