Musk neitar ásökun um kynferðisofbeldi

Elon Musk þvertekur fyrir ásökunina.
Elon Musk þvertekur fyrir ásökunina. AFP

Elon Musk, eigandi Tesla, neitaði í gær ásökun þess efnis að hann hafi áreitt flugfreyju kynferðislega fyrir sex árum.

„Þessar klikkuðu ásakanir eru að öllu leyti ósannar,“ sagði Musk á Twitter en hann ætlar sér að kaupa samfélagsmiðilinn fyrir 44 milljarða Bandaríkjadala.

Á að hafa gerst í einkaþotu

Fréttastofa Insider greindi frá því í gær að Space X, geimferðarfyrirtæki í eigu Musk, hafi greitt konu 250.000 dali árið 2018 eftir að sátt þess efnis hafi náðst þeirra á milli. 

Samkvæmt frétt Insider felst í ásökuninni að Musk hafi sýnt flugfreyjunni getnaðarlim sinn í fullri reisn og snert á henni fótlegginn í leiðinni án samþykkis. Á þetta að hafa gerst í einkaþotu Musk á meðan hann fékk nudd frá umræddri flugfreyju á leiðinni til London.

Musk vísar ásökuninni á bug

Musk þvertekur fyrir ásökunina og tjáði sig um málið á Twitter í gær. „Þessi árás gegn mér er pólitísk árás - þetta er allt eftir bókinni hjá þeim.“

Musk tók ekki fram í Twitter-færslu sinni hver gæti staðið á bak við árásina en bætti við: „Ég skora á lygarann, sem heldur því fram að hann hafi séð mig nakin, að lýsa einum hlut, hverju sem er sem er ekki í vitund almennings. Hún mun ekki geta það því þetta gerðist aldrei.“ 


 

mbl.is