Notuðu ekki bandarísk vopn

Bandaríska varnarmálaráðuneytið þvertók fyrr í dag fyrir að bandarískum vopnum hefði verið beitt í árás Úkraínumanna á herflugvöllinn í Sakí á Krímskaga fyrr í vikunni. Þá viti Bandaríkjastjórn ekki hvað hafi ollið sprengingunum þar. 

Að minnsta kosti átta herþotur Rússa voru gjöreyðilagðar í árásinni, auk þess sem eldsneytistankar og skotfærageymslur sprungu í loft upp. Úkraínumenn hafa hins vegar ekki lýst yfir ábyrgðinni á henni á hendur sér. Hafa því verið uppi miklar vangaveltur um að þeir hafi fengið langdræg skotfæri í HIMARS-eldflaugakerfið frá Bandaríkjastjórn. 

Talsmaður Pentagon sagði hins vegar við fjölmiðla að Bandaríkjastjórn hefði ekki veitt Úkraínumönnum nein vopnakerfi sem gætu drifið nógu langt til að hæfa flugstöðina, en hún er um 225 kílómetrum frá víglínunni. 

Nefndi hann þar sérstaklega ATACMS-skotfærin, sem eru ætluð fyrir HIMARS-eldflaugakerfið, en þau hafa um 300 kílómetra drægi. „Það var ekki ATACMS, því við höfum ekki gefið þeim ATACMS“, sagði embættismaðurinn. 

Þá hefði ráðuneytið engar upplýsingar um það hvort að þetta hefði verið eldflaugaárás eða skemmdarverk. Hitt væri þó ljóst að árásin hefði haft mjög mikil áhrif á flughernað Rússa í Úkraínu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert