Segjast hafa sprengt mikilvæga brú í Kerson

Gervihnattarmynd frá fyrri árás Úkraínumanna á Nova Kakahovka-veginn.
Gervihnattarmynd frá fyrri árás Úkraínumanna á Nova Kakahovka-veginn. AFP

Yfirvöld í Úkraínu segja hersveitum sínum hafa tekist að sprengja brú á mikilvægri staðsetningu í Kerson.

Kerson var fyrsta úkraínska borgin til að falla í hendur rússneskra hersveita en Úkraínumenn hafa undanfarna daga og vikur snúið vörn í sókn á svæðinu og sótt fast. 

Úkraínumenn segja brúna, sem er yfir ána Nova Kakahovka og Úkraínumenn hafa áður skotið á, nú vera ónýta. Yfirlýsingarnar hafa ekki verið staðfestar. 

Aðeins eru nokkrir dagar síðan Úkraínumönnum tókst að sprengja upp Antonivskí-brúna sem er á sama svæði. Umferðaræðar rússneska hersins á Kerson-svæðinu eru því stórskaddaðar.

„Eyðilegging vegarins yfir Nova Kakahovka-stífluna hefur verið tryggð og hefur hann verið tekinn út úr umferð,“ segir í yfirlýsingu úkraínsku herstjórnarinnar í Suður-Úkraínu á facebook. 

mbl.is