70 morð á dag

Lögreglumenn að störfum í Suður-Afríku.
Lögreglumenn að störfum í Suður-Afríku. AFP

Næstum 70 morð voru að meðaltali skráð í Suður-Afríku daglega á fyrri helmingi þessa árs, að sögn lögreglunnar í landinu.

Þetta er aukning um 16 prósent frá síðasta ári og hafa stjórnvöld að vonum miklar áhyggjur af stöðunni.

„Rifrildi og misskilningur“ ásamt „hefnd“ voru helstu ástæður fyrir morðunum. Næst á eftir komu morð þar sem fólk tók lögin í eigin hendur, að sögn lögreglunnar.

Á síðasta ári voru að meðaltali framin 65 morð á dag í Suður-Afríku.

„Fjöldi morða í þessu landi er enn mikill og við höfum áhyggjur af því,“ sagði Behki Cele, ráðherra löggæslumála í landinu.

Lögreglan gagnrýnd

Almenningur í Suður-Afríku kvartar oft yfir því hve lögreglan er sein að bregðast við eða hversu léleg hún er í að koma í veg fyrir glæpi. Fyrir vikið tekur fólk lögin í eigin hendur.

Tveir grunaðir ræningjar voru grýttir til bana og lík þeirra brennd af hópi fólks í héraðinu Limpopo á miðvikudag eftir að þeir reyndu að ræna konu, að sögn lögreglunnar.

Reiður múgur hefur einnig haft hendur í hári ólöglegra námuverkamanna og -innflytjenda undanfarnar vikur eftir hópnauðgun á átta konum vestur af Jóhannesarborg í júlí.

Nauðgunum fækkaði um í kringum 5 prósent á öðrum fjórðungi þessa árs í landinu. Enn eru þær samt afar margar og voru á þessu tímabili skráðar 9.516 nauðganir, eða yfir 100 á dag.

mbl.is