Milljón strandaglópar

Lestir fyrirtækisins OeBB í kyrrstöðu á Westbahnhof-brautarstöðinni í Vín snemma …
Lestir fyrirtækisins OeBB í kyrrstöðu á Westbahnhof-brautarstöðinni í Vín snemma í morgun. AFP/Georg Hochmuth

Um það bil milljón lestafarþegar í Austurríki komast hvorki lönd né strönd eftir að 24 klukkustunda verkfall starfsmanna þarlendra járnbrauta í stéttarfélaginu Vida hófst á miðnætti í nótt.

Segja talsmenn Vida launaviðræður við vinnuveitendur hafa farið út af sporinu þegar „hæðst var að“ 50.000 starfsmönnum með „hlægilegu tilboði“. Krefjast samningamenn Vida 400 evra hækkunar launa, upphæðar sem nemur 58.600 krónum, en tilboð vinnuveitenda nam aðeins rúmum helmingi þeirrar tölu, 208 evrum. Er launakrafan sett fram með vísan til tólf mánaða verðbólgu frá október til október upp á ellefu prósent.

Starfsfólk næturlestanna þénar 1.356 evrur eftir skatt mánuð hvern, eða 198.654 krónur. Verkföll eru fátíð í Austurríki, tæp 20 ár eru frá seinasta verkfalli við járnbrautirnar árið 2003.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert