Ofbeldisbylgja ríður yfir Stokkhólm

Alls áttu sér stað 388 skotárásir í Svíþjóð í fyrra.
Alls áttu sér stað 388 skotárásir í Svíþjóð í fyrra. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Átök á milli glæpagengja hafa valdið bylgju af skot- og sprengjuárásum í Stokkhólmi, höfuðborg Svíþjóð, frá áramótum. Veitingastaður hefur verið lagður í rúst og handsprengju kastað í fjölbýlishús, svo eitthvað sé nefnt.

Þá áttu sér stað fjórar skotárásir og þrjár sprengjuárásir í höfuðborginni í vikunni, en samtals hefur 21 slíkt atvik verið tilkynnt til yfirvalda frá jóladag, þar af tvö andlát í kjölfar árása.

Lögreglan í Stokkhólmi hefur kallað saman sérstakan hóp til þess að reyna að hemja ofbeldið.

Átök um umráð á fíkniefnamarkaði

Lögregla telur að ofbeldisbylgjuna megi rekja til átaka milli tveggja gengja um umráð á eiturlyfjamarkaði borgarinnar auk hefndarárása á milli þeirra.

„Við erum að sjá margar deilur samtímis blossa upp í undirheiminum, ekki bara eina deilu,“ segir Mattias Andersson, lögreglustjóri lögreglunnar í Stokkhólmi, við blaðamenn.

Yfirvöld í Svíþjóð hafa átt í erfiðleikum með það að stemma stigu við gengjamyndun, en útsendarar gengja fá oft til sín unga nýliða sem eru á unglingsárum.

Vopnuð lögregla í miðbæ Stokkhólms.
Vopnuð lögregla í miðbæ Stokkhólms. AFP

Vilja ungu nýliða

Þetta gera þeir þar sem yngri glæpmenn eiga yfir höfði sér vægari refsingu sökum aldurs.

Hanna Paradis, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni í Stokkhólmi, segir að ríflega helmingur grunaðra í gengjaglæpamálum séu yngri en 18 ára og 75% eru yngri en 20 ára.

Paradis segir marga unglinga vera neydda til þess að fremja glæpi og ef þeir neiti sé þeim hótað lífláti.

Lögreglan lagði hald á 300 vopn í tengslum við gengi í fyrra og þar af voru 42 sjálfvirk vopn. Einnig lagði lögreglan hald á nokkur tonn af fíkniefnum og fjölda sprengja. Alls áttu sér stað 388 skotárásir í Svíþjóð í fyrra og þar af var 61 árás banvæn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert