Maxwell: Epstein var myrtur

Ghislaine Maxwell og Jeffrey Epstein á samsettri mynd.
Ghislaine Maxwell og Jeffrey Epstein á samsettri mynd. AFP

Ghislaine Maxwell, dæmdur sam­verkamaður kynferðisafbrotamannsins Jeffreys Epsteins, heldur því fram að Epstein hafi verið myrtur í fangelsi. Þetta kemur fram í viðtali í þætti bresku sjónvarpsstöðvarinnar TalkTV. 

Maxwell hlaut 20 ára fangelsisdóm fyrir að aðstoða Epstein við að brjóta kynferðislega gegn unglingsstúlkum og afplánar hún nú dóminn í fangelsi í Flórída í Bandaríkjunum. 

Epstein, sem var sakaður kynferðisbrot gegn börnum, þurfti aldrei að svara til saka fyrir dómstólum þar sem hann lést í fangelsi í ágúst 2019, 66 ára að aldri. Niðurstaða krufningar leiddi í ljós að hann hafi tekið eigið líf með því að hengja sig. Þrátt fyrir það hafa ýmsum samsæriskenningum um dauðdaga hans verið haldið á lofti.

Viðurkenndu að hafa falsað skjöl

„Ég trúi því að hann hafi verið myrtur,“ segir Maxwell í sjónvarpsþættinum sem var sýndur í gær. „Ég varð fyrir áfalli. Svo fór ég að velta því fyrir mér hvernig þetta hefði gerst.“

Sérfræðingur í réttarmeinafræðum, sem bróðir Epstein réði til starfa, sagði árið 2019 að sönnunargögn bentu til þess að Jeffrey Epstein hefði verið myrtur. Hann hélt því fram að fjölmörg beinbrot í hálsi hans hefðu verið „mjög óvenjuleg“ hvað sjálfsvíg varðar.

Bandaríska dómsmálaráðuneytið hefur staðið fyrir áralangri rannsókn á því hvernig Epstein átti að hafa getað hengt sig í fangelsinu. Ráðuneytið hefur þó ekki komið fram með nein gögn sem benda til þess að nokkuð saknæmt hafi þarna átt sér stað. 

Tveir fangaverðir, sem voru á vakt, viðurkenndu að hafa falsað skjöl um það hvernig Epstein lést umrætt kvöld. Þeir voru ákærðir síðla árs 2019 fyrir vanrækslu í starfi, en saksóknarar vísuðu þó málinu frá tveimur árum síðar eftir að fangaverðirnir höfðu lokið samfélagsþjónustu samkvæmt samkomulagi.

mbl.is