„Höfum aldrei upplifað annað eins“

Á Sjúkrahúsinu í Randers áttu læknar og hjúkrunarfólk ekki orð …
Á Sjúkrahúsinu í Randers áttu læknar og hjúkrunarfólk ekki orð þegar þriðji og fjórði sjúklingurinn frá sama umönnunarheimilinu komu með sjúkrabifreið sama morguninn. Tveir er óvanalegt en fjórir undarlegt sagði læknir í vitnastúkunni. Ljósmynd/Wikipedia.org/Beethoven9

Tvær grímur tóku að renna á áhöfn sjúkrabifreiðar í Randers í Danmörku þegar hún mætti í fjórða skiptið sama daginn á sama umönnunarheimilið þar í bænum, Tirsdalen-heimilið. Í öll fjögur skiptin þurfti að leggja vistmenn heimilisins inn á sjúkrahús og allir fjórir höfðu sömu einkennin.

Þetta var að morgni sunnudagsins 27. febrúar í fyrra og hafði allt fólkið verið flutt á Sjúkrahúsið í Randers fyrir klukkan tíu. Þegar sjúkrabifreiðin kom að Tirsdalen-heimilinu í þriðja skiptið gat læknir í áhöfn hennar ekki orða bundist. „Nú er þetta í þriðja skiptið sem við komum hingað út eftir, það er eitthvað bogið við verklagið hjá ykkur,“ sagði hann við vakthafandi starfsfólk sem vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið.

Á sjúkrahúsinu vöktu sjúklingarnir einnig spurningar. Fjórir sjúklingar frá sama vistheimili með sömu einkenni var ekki daglegt brauð. Það staðfestu þrír læknar þaðan þegar þeir báru vitni við aðalmeðferð sakamáls í Héraðsdómi Randers á mánudaginn.

Hélt að eitthvað væri í matnum

Sakborningur í málinu er sextugur félagsliði á heimilinu, kona sem nú er ákærð fyrir manndráp og tilraun til manndráps. Hún var handtekin 14. mars í fyrra og hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan. Þá var einn sjúklinganna fjögurra látinn en hinir þrír á batavegi. Allt hafði fólkið þó verið í lífshættu þegar það var flutt á sjúkrahúsið. Ákærða neitar sök.

„Við höfum aldrei upplifað annað eins [...] Tveir sjúklingar frá sama umönnunarheimili sama daginn er óvanalegt. Þegar sá þriðji og loks fjórði bætist við köllum við það undarlegt. Það hefur ekkert okkar upplifað áður,“ sagði einn læknanna í vitnastúkunni.

„Ég hugsaði með mér hvað væri á seyði, hvort eitthvað væri í matnum,“ sagði félagsliði sem einnig bar vitni. Sú starfar á annarri deild en var ítrekað beðin um að koma yfir á deild fólksins sem veiktist 27. febrúar til að vera til aðstoðar. Lýsti hún ástandi tveggja sjúklinganna þannig að annar þeirra hefði verið algjörlega meðvitundarlaus en hinn, 81 árs gömul kona sem lést á sjúkrahúsinu, hefði kastað upp.

Grét og hristi höfuðið

„Ég hafði aldrei séð annað eins og ég hef haft tengsl við þetta heimili í fimmtán ár,“ sagði vitnið og bætti því við að fyrst hefði hún talið um kórónuveirusýkingu að ræða en næst dottið í hug að fólkið hefði fengið ranga lyfjagjöf.

Meðan á vitnaleiðslum stóð grét ákærða og hristi höfuðið en framangreint vitni hitti einmitt naglann á höfuðið. Sjúklingarnir fjórir, tvær konur og tveir karlmenn, öll á áttræðis- og níræðisaldri, fengu röng lyf. Grunur leikur hins vegar á að þar hafi hvorki handvömm né hirðuleysi verið fyrir að fara. Ákærða hafi einfaldlega ætlað að ráða þeim bana.

Í ákæru er henni gefið að sök að hafa gefið fólkinu vöðvaslakandi lyfið Baklófen sem gefið er við spastískum vöðvakrömpum og skylt gamma-amínó-smjörsýru, GABA, sem dregur úr losun ákveðinna boðefna í mænu. Ofan í það hafi ákærða gefið fórnarlömbum sínum geðdeyfðarlyfið Mirtazapín, sem einnig hefur róandi verkun, og bensódíasepínlyfið Diazepam, almennt þekkt sem Valíum, sem hefur slævandi, kvíðastillandi og vöðvaslakandi eiginleika.

Gerði þessi lyfjablanda það að verkum að fólkið komst í bráða lífshættu og sem fyrr greinir lést önnur kvennanna. Alls koma 39 vitni fyrir Héraðsdóm Randers við aðalmeðferð málsins og er dóms að vænta í febrúar. Saksóknari krefst tólf ára fangelsisrefsingar.

DR

TV2

BT (maí 2022)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert