Fjórum rússneskum erindrekum vísað úr landi

Karl Nehammer, kanslari Austurríkis, (til hægri) ásamt forsætisráðherra Hollands, Mark …
Karl Nehammer, kanslari Austurríkis, (til hægri) ásamt forsætisráðherra Hollands, Mark Rutte. AFP/Alex Halada

Austurríki hefur vísað úr landi fjórum rússneskum erindrekum, þar á meðal tveimur sem hafa starfað fyrir Sameinuðu þjóðirnar í höfuðborginni Vín.

Erindrekarnir eru sagðir hafa gerst sekir um „háttsemi sem hæfir ekki stöðu þeirra sem erindrekar,“ sagði utanríkisráðuneyti Austurríkis og bætti við að þeir hafi frest til 8. febrúar til að yfirgefa landið.

Sjaldgæft er að erindrekar séu reknir frá hinu hlutlausa landi Austurríki, sem átti í nánum samskiptum við Rússa áður en þeir réðust inn í Úkraínu.

Í apríl í fyrra ráku austurrísk stjórnvöld fjóra rússneska erindreka úr landinu, sem hluta af samrýmdum aðgerðum Evrópusambandsins eftir að Rússar voru sakaðir um að drepa almenna úkraínska borgara í úthverfi höfuðborgarinnar Kænugarðs, Bútsja.

Áður en það gerðist ráku Austurríkismenn rússneskan erindreka úr landi í apríl árið 2020 sem var sakaður um njósnir.

Níu milljónir manna búa í Austurríki, sem í gegnum tíðina hefur litið á sig sem brú á milli austurs og vesturs.

mbl.is