Óhæfur til að sitja í fangelsi

Eirik Jensen, í brúnum leðurjakka fyrir miðri mynd, gengur í …
Eirik Jensen, í brúnum leðurjakka fyrir miðri mynd, gengur í dómsalinn í Héraðsdómi Óslóar við dómsuppkvaðningu í máli hans þar í september 2017. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Fyrrverandi yfirlögregluþjónninn norski, Eirik Jensen, sem hlaut 21 árs dóm fyrir hlutdeild sína í innflutningi á 14 tonnum af hassi, hefur verið látinn laus úr Kongsvinger-fangelsinu þar sem hann hóf afplánun sína í kjölfar dóms Lögmannsréttar Borgarþings í júní 2020. Norska fangelsismálastofnunin hefur komist að þeirri niðurstöðu að heilsa hans leyfi ekki frekari afplánun.

„Við höfum unnið að því síðan í fyrrasumar að fá hann út úr fangelsi,“ segir John Christian Elden, lögmaður og áður verjandi Jensens, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.

„Nú eigum við mun betri möguleika á að vinna með málið og endurupptökuferlið. Hann á núna að halda sig heima og reyna eftir föngum að safna kröftum,“ segir Elden um skjólstæðing sinn en lögmaðurinn ræddi þetta mál og fleiri af ferli sínum í ítarlegu viðtali við Morgunblaðið í desember.

Nýtt mat eftir sex mánuði

Nýfengið frelsi Jensens táknar þó ekki að hann sé laus allra mála. Hann er frjáls ferða sinna í sex mánuði til að byrja með en þá fer fram nýtt mat á heilsufari hans og því hvort ástand hans leyfi frekari afplánun. Fangelsismálastofnun staðfestir þessar upplýsingar við NRK en gefur engar frekari vegna þagnarskyldu sinnar um málið.

Segir Elden lögmaður óljóst hvað þeir Jensen geri þegar sex mánaða tímabilinu lýkur. Þá sé mögulegt að sækja um afplánun með ökklabandi verði hann áfram metinn óhæfur til að sitja í fangelsi en fyrst þurfi þá að meta hann hæfan til að afplána með ökklabandinu.

Aðspurður segir hann að teljist skjólstæðingur hans hvorugan afplánunarkostinn þola sé ekki annað í stöðunni en að veita honum náðun.

Ragna Lise Vikre, sambýliskona Jensens, kveðst í samtali við NRK gleðjast yfir því að hann sé laus úr haldi.

„Þetta er sérstakt. Ég er mjög glöð yfir því að stofnunin hafi komist að skynsamlegri niðurstöðu,“ segir Vikre, sá tími sem Jensen sat inni hafi verið honum mjög þungbær. „Mjög er af honum dregið. Ég mun gera mitt til að koma honum á fætur, andlega og líkamlega. Hann hefur haft það hreint bölvanlegt síðasta eina og hálfa árið,“ segir hún enn fremur.

NRK
VG
TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert