McCann leitað í uppistöðulóni

Lögreglan í Portúgal leitar nú við stíflu, skammt frá hótelinu …
Lögreglan í Portúgal leitar nú við stíflu, skammt frá hótelinu er breska stúlkan Madelaine McCann hvarf frá í maímánuði fyrir 16 árum, vorið 2007. AFP/Filipe Amorim

Þýska lögreglan stjórnar nú leitaraðgerð við uppistöðulón Arade-stíflunnar í Suður-Portúgal, skammt frá Praia da Luz þar sem breska kornabarnið Madeleine McCann hvarf sporlaust fyrir 16 árum.

Sá sem nú liggur helst undir grun portúgölsku lögreglunnar um að tengjast hvarfi McCann, Þjóðverjinn Christian Brückner, birtist á upptöku öryggismyndavélar skammt frá hótelherberginu þar sem síðast var vitað um McCann daginn sem hún hvarf, 3. maí 2007.

Hans Christian Wolters, ríkissaksóknari í Þýskalandi, tjáði þýsku sjónvarpsstöðinni NDR í dag að rannsakendur hefðu ástæðu til að ætla að finna mætti gögn er tengdust hvarfi stúlkunnar við Arade-stífluna.

Leita ekki af því bara

Við aðra þýska sjónvarpsstöð, RTL, sagði Wolters hins vegar að ekki væri unnt að slá neinu föstu. „Þetta byggist ekki á ábendingum frá grunaða [...] en þið getið vel gert ykkur í hugarlund að við förum ekki að leita einhvers staðar í Portúgal af því bara, við hljótum að hafa einhverja ástæðu,“ sagði saksóknarinn.

Ástæðuna kvað hann vissulega vera til staðar. „Við höfum ástæðu, en ég bið ykkur að sýna því skilning að ég get ekki, rannsóknarinnar vegna, útskýrt hana fyrir ykkur hér og nú.“

Um hádegisbil í dag, þriðjudag, voru rúmlega tveir tugir lögregluþjóna við leit í nágrenni stíflunnar en portúgalska lögreglan verst allra frétta. Er þetta ekki í fyrsta skipti sem leitað er á þessu svæði, árið 2008 leituðu kafarar í uppistöðulóni stíflunnar í kjölfar þess er portúgalska lögfræðingnum Marcos Aragao Correia bárust ábendingar úr portúgölskum undirheimum um að líki bresku stúlkunnar hefði verið sökkt þar á sínum tíma. Sú leit reyndist árangurslaus.

BBC

mbl.is