Sektaður um 18 milljónir fyrir of hraðan akstur

Lögreglumaður við hraðamælingu. Mynd úr safni.
Lögreglumaður við hraðamælingu. Mynd úr safni. mbl.is/afp

Andres Wiklöf, einn ríkasti maður Finnlands, hlaut sekt fyrir of hraðan akstur upp á 121 þúsund evrur en það nemur um 18 milljónum íslenskra króna.

Fréttastofa ABC greinir frá þessu.

Wiklöf ók um Álandseyjar sem heyra undir Finnland og var á leið sinni til Maríuhafnar, höfuðborgar Álandseyja, þegar hann var stöðvaður af lögreglu. Hann var þá á 80 kílómetra hraða en leyfilegur ökuhraði á götunni var aðeins 50 kílómetra hraði. 

Sektir taka mark af tekjum

Í Finnlandi eru sektir reiknaðar út frá tekjum einstaklingsins sem brýtur af sér en þessi aðferð hefur verið til staðar í Finnlandi síðan 1921. Þar sem árlegar tekjur Wiklöf eru mjög háar var hæfileg sekt fyrir brotið metin á 18 milljónir. 

Wiklöf sagði í samtali við fjölmiðla á svæðinu að hann hafi gert sér grein fyrir því að hann væri yfir hámarkshraða en að hámarkshraðinn hafi breyst skyndilega á veginum og að hann hafi ekki náð að hægja á ökutækinu í tæka tíð. 

Vonast til að sektin fari í heilbrigðismál

Þetta er ekki fyrsta sektin sem Wiklöf fær fyrir of hraðan akstur. Árið 2018 hlaut hann rúmlega níu milljóna króna sekt og árið 2013 hlaut hann sekt upp á 14 milljón krónur. Í heildina hefur hann því þurft að greiða rúmlega 41 milljón fyrir of hraðan akstur.

Wiklöf segist vonast til þess að greiðsla hans verði notuð í eitthvað gott.

 „Ég heyrði að þau ætla að spara einn og hálfan milljarð í heilbrigðismál í Finnlandi svo ég vona að þessi sekt geti brúað bilið að einhverju leyti þar,“ sagði hann.

mbl.is