Vilja að allar Boeing 737 Max verði skoðaðar

737 MAX vél Boeing.
737 MAX vél Boeing. AFP

Flugvélaframleiðandinn Boeing biður flugfélög um að láta skoða allar vélar af tegundinni 737 Max vegna möguleika á lausum skrúfbolta í stýrikerfinu.

Beiðnin kemur í kjölfar þess að laus skrúfbolti fannst í kerfi einnar vélar, að sögn flugmálastjórnar Bretlands. Breska ríkisútvarpið greinir frá.

„Vandamálið var greint á tiltekinni flugvél og hefur verið lagað,“ sagði Boeing í yfirlýsingu. Flugmálastjórn Bretlands segist fylgjast „grannt með skoðunum á Boeing 737 Max flugvélum til þess að finna hugsanlegan skrúfbolta í stýrikerfinu“.

Farþegar þurfi ekki að hafa áhyggjur

Boeing mælir með að skoðanir, sem taka ekki lengri tíma en tvær klukkustundir, verði framkvæmdar á næstu tveimur vikum. Að sögn Boeing skoða áhafnir flugvéla reglulega stýrikerfið fyrir flugtak.

Anthony Brickhouse, sérfræðingur í loftöryggi, segir við fréttastofuna Reuters að flugfélög þurfi að líta málið alvarlegum augum en að farþegar þurfi ekki að hafa áhyggjur af lausum skrúfboltum.

Hlutabréfaverð Boeing lækkaði um 1% í dag.

Flug­vél­ar af teg­und­inni 737 Max máttu fljúga á nýj­an leik í Bandaríkjunum árið 2020 eftir að þær höfðu verið kyrr­sett­ar í 20 mánuði vegna tveggja mann­skæðra slysa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert