Ógilti 56 milljarða dollara launapakka Musk

Elon Musk í Póllandi fyrr í mánuðinum.
Elon Musk í Póllandi fyrr í mánuðinum. AFP/Sergei Gapon

Dómari í Delaware-ríki í Bandaríkjunum hefur ógilt launapakka til Elons Musk, forstjóra Teslu, upp á 56 milljarða dollara sem samþykktur var árið 2018 af bílaframleiðandanum.

Hluthafi í Teslu höfðaði málið og sagði Musk hafa fengið of mikið greitt.

Dómarinn komst að þeirri niðurstöðu að hluthafinn, Richard Tornetta, „ætti rétt á riftun samningsins”.

„Með stjörnur í augum“

Dómarinn, Kathaleen McCormick, bætti við að í framhaldinu þyrftu málsaðilar að komast að samkomulagi. Hún sagði að stjórnendur Teslu sem sömdu um launapakkann hefðu „kannski verið með stjörnur í augum” vegna frægðar Musk og að þeir hefðu ekki látið hluthafa vita af greiðslunni með fullnægjandi hætti, að því er BBC greindi frá.

Hlutabréf í Teslu féllu um rúm þrjú prósent eftir að tilkynnt var um úrskurðinn.

Musk, sem er ríkasta manneskja heims, sagði á samfélagsmiðli sínum X: „Þið skuluð aldrei tengja fyrirtæki ykkar við ríkið Delaware.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka