Málið sagt snúast um annað en æru Jóns Ásgeirs

mbl.is/Hjörtur

Ekki verður betur séð en að tilgangur Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, fyrrverandi aðaleiganda Baugs Group ehf., með því að höfða meiðyrðamál gegn Birni Bjarnasyni, fyrrverandi dómsmálaráðherra, sé að koma höggi á Björn. Þetta kom fram í málflutningi Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns við aðalmeðferð málsins sem fram fór í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Sagði hann ljóst af gögnum málsins að málið snerist ekki á nokkurn hátt um æru Jóns Ásgeirs. Um slíka smámuni væri að ræða.

Málið snýst einkum um þau ummæli Björns í bók sinni „Rosabaugur yfir Íslandi“ sem gefin var út síðastliðið sumar, þar sem fjallað er um Baugsmálið svonefnt, að Jón Ásgeir hafi fengið dóm fyrir fjárdrátt í tengslum við það mál þegar hið rétta var að hann var sakfelldur fyrir meiriháttar bókhaldsbrot. Í kjölfarið skrifaði lögmaður Jóns Ásgeirs Birni bréf og fór fram á það að ummælin yrðu leiðrétt, Jón Ásgeir beðinn afsökunar, það auglýst og óseld eintök af bókinni að auki tekin úr sölu.

Jón Magnússon sagði að Björn hefði orðið við þessu eins og hann hefði haft tök á. Afsökunarbeiðni hefði verið birt og ritvillur sem gerðar hefðu verið athugasemdir við lagfærðar í næstu prentun bókarinnar skömmu síðar. Það hefði hins vegar ekki verið í hans valdi að taka óseldar bækur úr sölu heldur útgefandans. Björn hefði bent lögmanni Jóns Ásgeirs á að hann gæti beint þeirri kröfu sinni til hans. Að vísu skildist honum að bókin hefði þá þegar verið uppseld. Jón sagði að umbjóðandi sinn hefði ekki fengið nein viðbrögð við þessu af hálfu lögmanns Jóns Ásgeirs og því í góðri trú talið málið úr sögunni.

Viðbrögð Björns ófullnægjandi

Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs, lagði áherslu á að ummæli Björns hefðu verið röng og meiðandi fyrir umbjóðanda sinn. Hann sagði að viðbrögð Björns hefðu verið ófullnægjandi. Afsökunarbeiðni hans hefði verið í skötulíki og auglýsing sem hann hefði birt í Morgunblaðinu þar sem hún kom fram verið lítil. Þá hefði hann ekki gert neina tilraun til þess að beita sér fyrir því að óseld eintök bókarinnar væru tekin úr sölu. Hann sagði það ennfremur rangt að Björn hefði ekki fengið viðbrögð frá Jóni Ásgeiri við tilraunum sínum til leiðréttingar.

Krafa umbjóðanda hans væri að ummæli Björns yrðu dæmd dauð og ómerk og að honum yrði gerð refsing vegna brota gegn ákvæðum almennra hegningarlaga um ærumeiðingar. Þá yrði Birni gert að greiða Jóni Ásgeiri miskabætur upp á eina milljón króna vegna málsins og að birta dóminn opinberlega og greiða kostnað vegna þess. Jón Magnússon gerði á móti kröfu um að umbjóðandi hans yrði sýknaður vegna málsins.

Gestur hafnaði því alfarið að annað vekti fyrir Jóni Ásgeiri en að ná fram rétti sínum í málinu og taldi vangaveltur um annað ekki sæmandi í dómsmáli sem þessu. Hann lagði áherslu á að refsiverð háttsemi hyrfi ekki við það eitt að sá sem gerðist sekur um hana iðraðist gerða sinna. Horfa yrði ennfremur til þess í málinu að hinn stefndi væri lögfræðingur að mennt og hefði verið dómsmálaráðherra mestan hluta þess tíma sem Baugsmálið hefði verið í gangi. Gera yrði vegna þess sérstaka kröfu til hans um hlutlægni í málinu.

Sagði um sérstætt meiðyrðamál að ræða

Jón sagði að um mjög sérstakt meiðyrðamál væri að ræða og sennilega alveg einstakt þar sem krafist væri refsingar vegna ummæla sem þegar hefði verið beðist afsökunar á. Hann hefði komið að mörgum slíkum málum en aldrei vitað annað eins. Velti hann meðal annars upp þeirri spurningu hvernig hægt væri að dæma ummæli dauð og ómerk sem þegar hefði verið beðist afsökunar á og viðurkennt að væru röng.

Þá sagði Jón málið snúast um tjáningarfrelsið. Svo virtist sem markmið Jóns Ásgeirs væri að senda ákveðin skilaboð með málinu til annarra á þá leið að hann veigraði sér ekki við að höfða meiðyrðamál gegn fyrrverandi dómsmálaráðherra vegna tiltölulega lítilvægra atriða. Þessu hafnaði Gestur alfarið fyrir hönd umbjóðanda síns.

Hvorki Björn Bjarnason né Jón Ásgeir Jóhannesson voru viðstaddir aðalmeðferð málsins í morgun.

Björn Bjarnason, fyrrum dómsmálaráðherra.
Björn Bjarnason, fyrrum dómsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrum aðaleigandi Baugs Group ehf.
Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrum aðaleigandi Baugs Group ehf. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert