Valitor leiðir vitni fyrir dóm

Julian Assange, stofnandi WikiLeaks og Kristinn Hrafnsson, talsmaður síðunnar, sögðu …
Julian Assange, stofnandi WikiLeaks og Kristinn Hrafnsson, talsmaður síðunnar, sögðu niðurstöðu héraðsdóms sigur fyrir WikiLeaks. AFP

Greiðslukortafyrirtækið Valitor mun á morgun leiða fyrir héraðsdóm vitni í máli DataCell gegn fyrirtækinu. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í málinu Valitor í óhag og fann jafnframt að því að tilteknir starfsmenn fyrirtækisins gáfu ekki skýrslu fyrir dómi. Vitnaskýrslan kemur aðeins til álita fyrir Hæstarétti, en Valitor áfrýjaði dómi héraðsdóms.

DataCell höfðaði mál áhendur Valitor þar sem fyrirtækið lokaði greiðslugátt sem notuð var til að safna fjárframlögum fyrir WikiLeaks nokkrum klukkustundum eftir að hún var opnuð og rifti samningi sem gerður var við DataCell.

Héraðsdómur Reykjavíkur sagði að Valitor hefði hlotið að vera ljós tilgangur DataCell með notkun greiðslugáttar sem sótt var um, þ.e. að safna fjárframlögum fyrir WikiLeaks. Ekki var fallist á að rifta hafi mátt samningnum vegna brostinna eða rangra forsenda.

Þá segir í dómnum: „Það athugast í þessu sambandi að [Valitor] hefur ekki leitt sem vitni þá starfsmenn sína sem áttu samskipti beint við [DataCell], heldur eingöngu yfirmenn sem kváðust ekki hafa komið að samningsgerðinni. Verður þannig að leggja til grundvallar að samið hafi verið að nokkru á annan veg en segir í hinum skrifuðu textum.“

Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður DataCell, segir að þessi athugasemd dómara hafi orðið til þess að Valitor höfðaði vitnamál og verður skýrsla tekin af tilteknum starfsmanni Valitors á morgun. „Þá er tekin skýrsla af þessum tiltekna starfsmanni og endurrit af þeirri vitnaleiðslu lögð fram í Hæstarétti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert