Engin gögn enn borist frá kjararáði

mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Fjármálaráðuneytið og Þjóðskjalasafnið greinir á um hvorri stofnuninni beri að taka til greina beiðni um aðgang að fundargerðum kjararáðs. Ráðuneytið bendir á Þjóðskjalasafn en samkvæmt upplýsingum frá safninu hafa engin gögn borist frá skrifstofustjóra ráðsins, sem enn er við störf og hefur það hlutverk að ganga frá skjalasafni.

Skrifstofustjóri kjararáðs er enn fullt starf þótt ráðið hafi verið lagt niður 1. júlí eftir að lög þess efnis voru samþykkt í lok maí, stuttu fyrir þinglok. Enginn svarar þó símanum á skrifstofu ráðsins og við skriflegri fyrirspurn mbl.is berst sjálfvirkt svar um að ráðið starfi ekki lengur.

Benda hvor á aðra

Mbl.is sendi fjármálaráðuneyti bréf 10. júlí og óskaði eftir öllum fundargerðum kjararáðs frá 2006 til þess er ráðið var lagt niður, fyrr á þessu ári.

Beiðnin var áframsend til Þjóðskjalasafns en í pósti frá lögfræðingi ráðuneytisins segir að umbeðin gögn séu ekki í vörslu ráðuneytisins heldur „starfsmanns [kjararáðs] sem sér um frágang gagnanna“ og að ekki sé unnt að senda beiðni samkvæmt upplýsingalögum til þess starfsmanns þar sem „starfssvið hans takmarkast við að ganga frá gögnum ráðsins, þ.á m. að afhenda skjöl til Þjóðskjalasafns samkvæmt lagaskyldu.“ 

Í skriflegu svari skjalavarðar við fyrirspurn mbl.is í gær um hvort gögnin séu komin segir skjalavörður hins vegar að svo sé ekki og að engar viðræður séu hafnar milli Þjóðskjalasafns og fjármálaráðuneytisins um afhendingu gagnanna. Þá á skjalavörður ekki von á að gögnin berist „á allra næstu vikum eða mánuðum“. Bendir hann aftur á ráðuneytið enda sé það „þeirra sem hafa gögnin undir höndum [...] að taka efnislega afstöðu til aðgangs að þeim en ekki þess aðila sem skv. lögum mun taka við þeim einhvern tímann í náinni framtíð“.

Þjóðskjalasafn Íslands hefur engin gögn fengið frá kjararáði þótt sjö …
Þjóðskjalasafn Íslands hefur engin gögn fengið frá kjararáði þótt sjö vikur séu frá því ráðið var lagt niður. mbl.is/Ómar Óskarsson

48 umsóknir á einu bretti

Síðasta verk kjararáðs var að úrskurða um launahækkanir 48 forstjóra ríkisstofnana, en með því afgreiddi ráðið allar uppsafnaðar beiðnir um endurmat launa sem ráðinu höfðu borist árin 2016 og 2017. 

Á heimasíðu kjararáðs má finna yfirlit yfir alla úrskurði ráðsins frá því það var sett á laggirnar 2006. Ef frá er talinn síðasti úrskurður ráðsins, hefur kjararáð fjallað með sérstökum hætti um hverja beiðni sem því hefur borist um endurmat launa. Úrskurðum hefur fylgt rökstuðningur fyrir launabreytingum þar sem tíundaðar eru breytingar sem orðið hafa á eðli starfsins sem um ræðir, álagi og launaþróun samanburðarstarfa. Þá er föst regla að ráðið leiti umsagnar þess ráðuneytis sem umræddur ríkisforstjóri heyrir undir.

Athygli vekur að ekkert af þessu er að finna í síðasta úrskurði ráðsins, sem dagsettur er 14. júní 2018 en birtist á heimasíðu þess í byrjun júlí, nokkrum dögum eftir að ráðið var lagt niður. Þar er, sem fyrr segir, úrskurðað um laun 48 ríkisforstjóra á einu bretti. Þess er þó getið að viðeigandi ráðuneytum hafi verið gefinn kostur á að senda inn umsagnir, án þess að greint sé frá því hvort og þá hvers eðlis þær voru.

mbl.is