Telja sig vita hvar fólkið er í húsinu

mbl.is/Hari

Ekki er búist við því að hægt að verði að fara almennilega inn í einbýlishúsið á Selfossi sem varð eldi að bráð síðdegis í dag, fyrr en á morgun. Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Árnessýslu, segir afar líklegt að tvær manneskjur hafi verið inni í húsinu og það er ástæða þess að slökkviliðið fer varlega í grófar aðgerðir. Er það gert með tilliti til rannsóknarhagsmuna þar sem allar líkur eru á því að mannslát hafi orðið.

mbl.is/Hari

„Þessi bruni er þess eðlis. Það er hluti af ástæðunni fyrir því að við erum svona lengi að þessu. Við erum að slökkva þetta með tilliti til rannsóknarhagsmuna. Öllu jafna hefðum við gengið grófara fram, eins og við gerum þegar mikill eldur er í húsum og þau eru ónýt hvort eð er,“ útskýrir Pétur. Þegar mannslát verði í eldsvoða þurfi lögregla að rannsaka það með tilliti til alls konar aðstæðna, meðal annars hvernig eldurinn kom til og hvernig fólkið lést.

mbl.is/Hari

Hitamyndavélar hafa verið notaðar við leit að fólkinu og segir Pétur nokkra vissu um hvar það er staðsett í húsinu. Það sé þó ekki hægt að segja til um það með óyggjandi hætti því myndavélarnar geti blekkt. 

Pétur segir nú unnið að því að rjúfa þakið til að komast að almennilega að glæðum sem eru þar, en hann telur líklegt að styrkja þurfi gólfið á efri hæðinni til að menn geti gengið um með tryggum hætti.

Byrjað er að fækka í mannskap á vettvangi og er Hveragerðiseining slökkviliðsins til að mynda farin til baka. Áfram verður þó unnið á vettvangi fram á nótt og á morgun, líkt og áður sagði.

Tveir eru í haldi lögreglunnar vegna rannsóknar á eldsupptökum, húsráðandi og gestkomandi kona. Fram kom í tilkynningu frá lögreglunni í kvöld að ekki hefði enn verið hægt að yfirheyra fólkið sökum ástands þess.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert