„Við förum inn í þetta sem opið mál“

Rannsóknarvinna er að hefjast á vettvangi.
Rannsóknarvinna er að hefjast á vettvangi. mbl.is/Eggert

Fulltrúar tæknideildar lögreglunnar og Mannvirkjastofnunar eru komnir á brunavettvang við Kirkjuveg á Selfossi, þar sem einbýlishús varð eldi að bráð í gærkvöldi. Brunavarnir Árnessýslu afhentu lögreglu vettvanginn til rannsóknar fyrr í morgun. Fyrir liggur að tveir einstaklingar létust í brunanum og búið er að staðsetja þá í húsinu.

„Ég var bara að fá staðfestingu á að fólk er komið saman á staðnum og er að horfa í kringum sig með hvernig hægt er að gera þetta,“ segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi. Ganga þarf úr skugga um að hægt sé að athafna sig á efri hæðinni af öryggi, en sú vinna er í gangi að sögn Odds.

Húsið var alelda þegar slökkvilið kom á vettvang í gær. …
Húsið var alelda þegar slökkvilið kom á vettvang í gær. Tveir létust í brunanum. mbl.is/Eggert

Hann gerir ráð fyrir að vinna á vettvangi taki töluverðan tíma en einnig þarf að taka skýrslur af tveimur einstaklingum sem handteknir voru á vettvangi í gær, húsráðanda og gestkomandi konu. Skýrslutökur munu hefjast um eða eftir hádegi.

Aðspurður hvort grunur sé um íkveikju segir Oddur að lögregla gefi sér ekkert um eldsupptök og allar kenningar verði rannsakaðar. „Eitthvað styrkir einhverjar þeirra og annað slær aðrar út. Við förum inn í þetta sem opið mál, hver eldsupptökin eru, og leiðum okkur áfram eftir því.“

Hann segir því ekkert augljóst í þessum efnum. „Þó að það sé eitthvað sem blasir við þá eru allir endar skoðaðir í svona máli.“

Brunavakt verður einnig áfram á vettvangi til öryggis, en að sögn Odds hafa verið að blossa upp glæður í húsinu í alla nótt og í morgun.

Tilkynning um eldinn barst rétt fyrir klukkan fjögur í gærdag og þegar slökkvilið kom á vettvang var húsið alelda. Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Árnessýslu, lýsti því þannig í samtali við mbl.is í gær að húsið hefði verið einn eldhnöttur, eldur og reykur út um alla glugga. Grunur var um að fólk gæti verið inni í húsinu og fór slökkvilið því varlega í grófar aðgerðir á vettvangi. Slökkvistarf fór fram með tilliti rannsóknarhagsmuna, þar sem fljótlega varð ljóst að mannslát hefði orðið.

Tryggja þarf að hægt sé að athafna sig á efri …
Tryggja þarf að hægt sé að athafna sig á efri hæðinni af öryggi. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert