Hjúkrunarheimili vígt á Seltjarnarnesi

Hjúkrunarheimilið stendur á miklum útsýnisstað við Safnatröð 1 á Seltjarnarnesi.
Hjúkrunarheimilið stendur á miklum útsýnisstað við Safnatröð 1 á Seltjarnarnesi. Ljósmynd/Seltjarnarnesbær

Í dag fór fram vígsluathöfn hjúkrunarheimilis við Safnatröð á Seltjarnarnesi. Klippt var á borða við upphaf athafnarinnar kl. 13 og húsið blessað af séra Bjarna Þór Bjarnasyni, presti í Seltjarnarneskirkju, auk þess sem Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra ávörpuðu gesti.

Hjúkrunarheimilið samanstendur af fjórum 10 herbergja heimilum þar sem eru alls 40 hjúkrunarrými ásamt miðlægum kjarna fyrir dagdvöl, sjúkraþjálfun, iðju og þjónustu fyrir allt að 25 manns, en fyrsta skóflustunga að hjúkrunarheimilinu var tekin árið 2014. Þá var áætlað að taka heimilið í notkun árið 2016.

Velferðarráðuneytið og Seltjarnarnesbær hafa byggt hjúkrunarheimilið þar sem ríkið greiðir 85% af heildarkostnaði húsnæðisins og Seltjarnarnesbær 15%, auk þess sem Seltjarnarnesbær greiðir fyrir aðstöðu undir dagdvölina.

„Með stolti og gleði afhendir Seltjarnarnesbær húsnæðið nú í byrjun febrúar 2019, fullfrágengið til rekstraraðila heimilisins,“ segir í fréttatilkynningu frá bænum, en heilbrigðisráðuneytið hefur falið Vigdísarholti ehf., einkahlutafélagi í eigu ríkisins, að annast rekstur hjúkrunarheimilisins.

Gert er ráð fyrir að starfsemi hefjist í húsinu á allra næstu vikum en það verður tekið í notkun smám saman og vonast er til að það verði komið í fullan rekstur á næstu þremur mánuðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert