Hvattir til að drekka kranavatn

Bareigandinn, danskennarinn og ljósmyndarinn George Leite í auglýsingu fyrir Íslandsstofu.
Bareigandinn, danskennarinn og ljósmyndarinn George Leite í auglýsingu fyrir Íslandsstofu.

Ferðamenn eru hvattir til þess að draga úr plastnotkun og drekka kranavatn á ferð sinni um landið í nýrri markaðsherferð undir merkjum Inspired by Iceland í samstarfi við Umhverfisstofnun og hagaðila.

Í herferðinni er lögð áhersla á að kynna íslenska vatnið sem lúxusvöru undir heitinu „Kranavatn” sem finna má ókeypis í næsta krana um allt land. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Íslandsstofu.

Markmiðið er að draga úr óþarfa plastnotkun ferðamanna og vekja um leið athygli á gæðum íslenska vatnsins sem er eitt hreinasta og bragðbesta kranavatn í heimi. Með verkefninu er einnig ætlunin að styðja við umhverfisvernd og aðgerðir til að uppfylla Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Ráðherrarnir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og …
Ráðherrarnir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, koma fram í auglýsingum Íslandsstofu.

Í könnun sem framkvæmd var meðal 16.000 manns í Norður-Ameríku og Evrópu sögðust 65% aðspurðra nota meira af plastflöskum á ferðalögum heldur en heima hjá sér. Spurð um meginástæður þess nefndu 70% órökstuddan ótta við kranavatn og 19% nefndu þægindi. Í Kranavatnsherferðinni er skorað á ferðamenn að breyta þessu mynstri og drekka vatn beint af krana þegar þeir ferðast um Ísland og fylla á endurnýjanleg ílát í stað þess að kaupa vatn á plastflöskum, samkvæmt fréttatilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina