Ræddu aðgerðir VR í hádeginu

Stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna ræddi samþykkt stjórnar VR á fundi sínum …
Stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna ræddi samþykkt stjórnar VR á fundi sínum í hádeginu í dag. Ljósmynd/VR

Stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna (LV) hittist á fundi fyrr í dag til þess að ræða það sem virðist yfirvofandi, að fulltrúaráð VR afturkalli umboð þeirra fjögurra fulltrúa sem félagið tilnefnir í stjórn lífeyrissjóðsins.

Hvorki Ólafur Reimar Gunnarssonar formaður stjórnar né Guðrún Hafsteinsdóttir varaformaður vildu tjá sig efnislega um samþykkt stjórnar VR þegar eftir því var leitað, en sögðu bæði von á yfirlýsingu frá stjórn lífeyrissjóðsins síðar í dag.

Ólafur Reimar, sem situr í stjórn VR og er skipaður í stjórn LV af stéttarfélaginu, sagði þó í samtali við blaðamann að hann hefði „að sjálfsögðu“ verið annar þeirra tveggja stjórnarmanna í VR sem ekki samþykktu að bera tillöguna undir fulltrúaráðið, en 13 af 15 stjórnarmönnum stéttarfélagsins samþykktu það á fundi í gær.

Auk Ólafs Reimars sitja þau Auður Árnadóttir, Ína Björk Hannesdóttir og Magnús Ragnar Guðmundsson í stjórn LV fyrir hönd VR. Þar sitja einnig Guðrún, sem tilnefnd er af Samtökum iðnaðarins, Benedikt K. Kristjánsson tilnefndur af Kaupmannasamtökum Íslands, Guðný Rósa Þorvarðardóttir tilnefnd af Félagi atvinnurekenda og Árni Stefánsson sem er tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins.

mbl.is